Erlent

Helmingur fengið bóluefni en dregur úr aðsókn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Talið er að um 20 prósent Bandaríkjamanna séu ákveðnir í því að láta ekki bólusetja sig.
Talið er að um 20 prósent Bandaríkjamanna séu ákveðnir í því að láta ekki bólusetja sig. epa/Mary Altaffer

Bandarísk heilbrigðisyfirvöld greindu frá því um helgina að helmingur Bandaríkjamanna eldri en 18 ára hefði fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn Covid-19.

Héðan í frá kann hins vegar að verða á brattann að sækja en yfirvöld víða um land segja verulega hafa dregið úr aðsókn í bólusetningu. 

Í Mercer-sýslu í Ohio komust færri að en vildu í janúar. Nú eiga heilbrigðisyfirvöld í sýslunni hins vegar erfitt með að fylla öll pláss, þrátt fyrir að eiga nóg af bóluefninu. Þau óttast þróun mála.

Sama er uppi á teningnum í fleiri strjálbýlum sýslum Ohio og í fleiri ríkjum. 

Þeir sem voru ákveðnir í að láta bólusetja sig hafa gert það nú þegar en þeir telja ekki nema um 30 prósent. Þeir sem eru óbólusettir eru óákveðnir, hafa áhyggjur af aukaverkunum eða treysta ekki bóluefnunum.

Sums staðar, til dæmis í Ohio og í Georgíu, hefur fjölda bólusetningarstöðvum verið lokað.

„Við erum að koma að þeim punkti að við erum komin að þeim sem erfitt er að ná til,“ segir Lori Tremmel Freeman, framkvæmdastjóri samtaka yfirmanna í heilbrigðisþjónustu (NACCHO).

Umræddur hópur sé óviss, ekki nægilega upplýstur eða vilji hreinlega ekki láta bólusetja sig.

Bandarísk heilbrigðisyfirvöld hafa sagt að bólusetja þurfi 70 til 85 prósent þjóðarinnar til að ná að hefta útbreiðslu SARS-CoV-2 en kannanir benda til þess að um 20 prósent séu harðákveðin í því að láta ekki bólusetja sig.

Céline Gounder, sérfræðingur í smitsjúkdómum og faraldsfræðum, segir aðgengi hins vegar einnig hluta vandans. Þannig séu engar bólusetningamiðstöðvar í mörgum fátækum samfélögum, sem kemur einna verst niður á svörtum.

Unnið er að aðgerðum til að ná til ýmissa minnihlutahópa sem vantar hreinlega meiri upplýsingar en sumir sérfræðingar hafa áhyggjur af því að ákvörðun stjórnvalda að stöðva tímabundið notkun bóluefnisins frá Johnson & Johnson muni kynda enn frekar undir tregðu fólks til að láta bólusetja sig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×