Innlent

Allir starfs­menn Ís­lensks sjávar­fangs í skimun eftir að tveir starfs­menn smituðust

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Húsnæði Íslensks sjávarfangs í Kópavogi.
Húsnæði Íslensks sjávarfangs í Kópavogi. Ja.is

Allir starfsmenn Íslensks sjávarfangs í Kópavogi, um hundrað manns, verða skimaðir fyrir kórónuveirunni eftir að tveir starfsmenn greindust smitaðir í fyrradag. 

Þetta staðfestir Rúnar Björgvinsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins í samtali við fréttastofu en Fréttablaðið greindi fyrst frá í gærkvöldi. Áður hafði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn staðfest að hundrað starfsmenn matvælafyrirtækis hefðu verið sendir í skimun en sagði ekki hvaða fyrirtæki um ræddi.

Rúnar segir að fleiri starfsmenn hafi ekki greinst með veiruna fyrir utan áðurnefnda tvo. Hluti starfsmannanna fór í skimun í gær en restin fer í dag. 

„Við erum með þetta á tveimur vöktum og síðan erum við með fjóra vinnslusali og eitt skrifstofurými og hverjum vinnslusal er skipt upp. Í öllu falli er gætt mjög að öllum sóttvörnum.“

Hann hefur ekki upplýsingar um það hvernig starfsmennirnir smituðust. Annar starfsmaðurinn kom síðast í vinnuna 8. apríl en hinn 13. apríl, að sögn Rúnars. Þeir greindust svo í fyrradag, 16. apríl. Inntur eftir því hvort þeir hafi komið með einkenni í vinnuna segir hann að um leið og starfsmaður sýni minnstu einkenni veikinda sé hann látinn vera heima.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×