Innlent

Fresta bólusetningu með bóluefni Janssen

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. vísir/Egill

Þórólfur Guðnason segir að beðið verði með bólusetningar með bóluefni Janssen þar til betri upplýsingar liggja fyrir um mögulegar aukaverkanir.

Líkt og komið hefur fram hefur bandaríska lyfjafyrirtækið Johnson & Johnson ákveðið að fresta dreifingu á Janssen bóluefninu í Evrópu. Þetta var gert í kjölfar ákvörðunar Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna að stöðva tímabundið notkun bóluefnisins þar sem hið minnsta sex konur á aldrinum átján til 48 ára hafi fengið blóðtappa innan við tveimur vikum eftir bólusetningu. Ein þeirra erlátin og ein á sjúkrahúsi og er ástand hennar sagt alvarlegt.

Þórólfur segir þessar aukaverkanir svipa til þeirra sem greint var frá í tengslum við bóluefni AstraZeneca. 

Hann segir eðlilegt að skoða málið nánar. „Við munum bíða með að nota bóluefnið þar til við fáum betri upplýsingar,“ segir Þórólfur. Ekki er víst hversu lengi þetta hlé mun vara. 

„Við munum bíða með bóluefnið og sjá svo hvort við getum notað það fyrir ákveðna hópa sem við teljum að sé ekki hætta búin af bóluefninu eins og við erum að gera með Astra Zeneca,“ segir hann og bætir við að horft verði til upplýsinga frá Lyfjastofnun Evrópu og Norðurlöndunum.

Von er á 4.800 skömmtum af bóluefni Janssen í mánuðinum og hver einstaklingur þarf aðeins einn skammt. 

Setur þetta strik í reikninginn varðandi bólusetningar?

„Ef niðurstaðan verður sú að það verður ekki ráðlagt að nota bóluefnið mun það svo sannarlega gera það. Ég vona að það verði ekki nein töf þó við stoppum notkunina í einhverjar vikur. Ef endanlega niðurstaðan verður hins vegar sú að það sé ekki þorandi að nota bóluefnið mun það setja strik í reikninginn.“

Stórt strik?

„Við vorum búin að panta um 230 þúsund skammta og einn skammtur dugar fyrir einn einstakling þannig þetta er stór biti.“

Myndi það setja bólusetningar í verulegt uppnám?

„Já, það myndi gera það og breyta áætlunum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×