Fótbolti

Merkileg barnaþrenna Griezmanns

Sindri Sverrisson skrifar
Antoine Griezmann og dóttirin Mia í heimsmeistarafögnuði Frakka árið 2018.
Antoine Griezmann og dóttirin Mia í heimsmeistarafögnuði Frakka árið 2018. Getty/Matthias Hangst

Antoine Griezmann varð pabbi í þriðja sinn í gær og segja má að franski landsliðsframherjinn hafi náð fullkominni þrennu.

Griezmann og kona hans Erika Choperena eignuðust soninn Alba í gær, 8. apríl. Fyrir áttu þau tvö börn, á mismunandi aldri, sem einnig eru fædd 8. apríl.

Dóttirin Mia er elst en hún er fædd 2016, þremur mánuðum áður en Griezmann skoraði gegn Íslandi á EM í Frakklandi. Miðjubarnið er svo sonurinn Amaro sem fæddist 2019, þegar pabbi hans var orðinn heimsmeistari.

Alba kom í heiminn tveimur dögum fyrir einn mikilvægasta El Clásico leik í áraraðir. Griezmann missti af æfingu Barcelona í gær en samkvæmt spænskum miðlum má búast við því að hann æfi í dag og ferðist með liðinu til Madrid á morgun.

Þegar níu umferðir eru eftir af spænsku deildinni er gamla liðið hans Griezmann, Atlético Madrid, efst með 66 stig, Barcelona er með 65 og Real Madrid 63.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×