Innlent

Ekki úti­lokað að færslur á Reykja­nes­skaga valdi spennu­breytingum í Þrengslunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, á gossvæðinu í Geldingadölum. Hún segir ekki hægt að útiloka að þær miklu færslur sem hafa orðið á Reykjanesskaganum síðustu vikur geti valdið spennubreytingum á mjög stóru svæði, þar með talið í Þrengslunum.
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, á gossvæðinu í Geldingadölum. Hún segir ekki hægt að útiloka að þær miklu færslur sem hafa orðið á Reykjanesskaganum síðustu vikur geti valdið spennubreytingum á mjög stóru svæði, þar með talið í Þrengslunum. Vísir/Vilhelm

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir aukna jarðskjálftavirkni í Þrengslunum í gær að öllum líkindum hluta af hefðbundinni skjálftavirkni á svæðinu.

Ekki séu vísbendingar um að einhverjar nýjar jarðhræringar séu að hefjast þar, til dæmis sýni GPS-mælingar enga aflögun, en ekki sé þó hægt að útiloka að þær miklu færslur sem hafi orðið á Reykjanesskaganum undanfarinn mánuð valdi spennubreytingum á mjög stóru svæði, þar með talið í Þrengslunum.

Þetta kom fram í máli Kristínar í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hún ræddi eldgosið í Geldingadölum en líka aukna skjálftavirkni í Þrengslunum sem fjallað var um í gær.

„Við erum búin að vera að skoða þessa skjálfta og velta fyrir okkur ýmsum möguleikum. Er til dæmis hugsanlegt að vinnslan á Hellisheiði hafi eitthvað með þetta að gera? Við erum búin að útiloka það, það er engin niðurdæling á svæðinu, það virðist ekki vera sem spennubreytingar í tengslum við vinnsluna valdi þessum skjálftum þannig að við erum búin að útiloka það,“ sagði Kristín.

GPS-mælingar á svæðinu sýni enga aflögun, eins og áður var nefnt, og þá sé farið í að skoða söguna.

„Hvað vitum við um skjálftavirkni á svæðinu? Það hafa verið svipaðar hrinur þarna áður. 2018 varð mjög svipuð hrina en bara aðeins vestar þannig að ég held að við verðum að afskrifa þetta sem hluta af hefðbundinni skjálftavirkni á svæðinu. Það er samt ekkert útilokað að þessar miklu færslur sem hafa orðið á Reykjanesskaganum í tengslum við þessa gangamyndun, að þær valdi spennubreytingum á mjög stóru svæði. Þannig að það er ekki hægt að útiloka það að þær séu að valda spennubreytingum svona langt frá,“ sagði Kristín í Bítinu en hlusta má á viðtalið í heild í spilaranum hér fyrir neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×