Innlent

Há leiga á Íslandi meðal á­stæðna þess að út­lendingar í atvinnuleit fljúga heim

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar.
Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar. Aðsend/Vilhelm

Hátt leiguverð hér á landi og þörf til að sinna veikum ættingjum í Póllandi eru meðal ástæðna þess að atvinnulausir Pólverjar dvelja í heimalandi sínu á meðan á atvinnuleit stendur. Þetta segir varaformaður Eflingar.

Ummæli Kára Stefánssonar, forstjóra íslenskrar erfðagreiningar, í Kastljósi í vikunni vöktu mikla athygli en þar benti hann á að að smit sem greinast á landamærunum koma meðal annars með fólki sem þurfi að ferðast frá og til landsins í þeim tilgangi að sækja atvinnuleysisbætur.

Forstjóri Vinnumálastofnunar sagði í kvöldfréttum okkar í gær að útlendingar á atvinnuleysisbótum eigi rétt á því að leita að vinnu annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu í þrjá mánuði.

Mikill fjöldi Pólverja býr á Íslandi en í heimalandi þeirra er Covid-19 ástandið mjög alvarlegt. Varaformaður Eflingar segir að flestir þeir Pólverjar sem vinna hér á landi dvelji í leiguhúsnæði.

„Atvinnuleysisbætur eru lágar og framfærslukostnaður veldur því að stundum getur verið erfitt fyrir þau að lifa á svona litlum peningum og án stuðnings fjölskyldunnar, sagði Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar.

Því ákveði margir að dvelja í heimalandi sínu þar sem þeir ráði ekki við hátt leiguverð hér á landi án atvinnu. Stundum er tilfellið þannig að vinnuveitandi útvegar vinnuaflinu húsnæði. Þegar viðkomandi missir vinnuna, missir hann húsnæðið um leið og á oft ekki í nein hús að venda hér á landi.

Einnig vilji fólk sinna veikum ættingjum í Póllandi á meðan á faraldri kórónuveirunnar stendur.

„Allir reyna að hugsa um fjölskyldu sína. Ef einhver ættingi Íslendings er veikur þá er hann hér. En fyrir útlendinga er staðan allt önnur,“ sagði Agnieszka.


Tengdar fréttir

Telur af og frá að bætur dragi fjölda smitaðra til landsins

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir ummæli Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, þess efnis að hingað streymi fólk frá Póllandi til að sækja atvinnuleysisbætur, með Covid í farteskinu, ekki standast neina skoðun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×