Um er að ræða minnisblað frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni þar sem lagt er til að börn fari líka í sýnatöku á landamærum auk þess sem fólk frá ákveðnum áhættusvæðum verði skyldað til að dvelja í farsóttarhúsi við komuna.
„Við erum að reyna að stoppa í þessi göt á landamærunum eins og við getum,“ sagði Svandís í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Samkvæmt heimildum fréttastofu stendur nú yfir fundur formanna ríkisstjórnarflokkanna með Þórólfi áður en ráðherrarnir hefja fund sinn klukkan hálf tíu.
Þórólfur hafði orð á því á upplýsingafundi Almannavarna í gær að það væri staðreynd að fólk væri að brjóta sóttkví hér á landi. Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá slíkum brotum seint í gær en um var að ræða fólk sem naut sín á skíðum og átti bókað flug heim daginn fyrir seinni skimun.
Fimm greindust með kórónuveirusmit á sunnudag og voru þrír utan sóttkvíar. Vegna smita um helgina eru á þriðja hundrað manns í sóttkví. Þórólfur sagðist á upplýsingafundinum í gær ljóst að grípa þyrfti til hertra aðgerða ef ljóst þætti að veiran væri farin að dreifa sér. Hann sagði þó ekki skipta öllu máli hvort það yrði gert í dag (í gær) eða á morgun (í dag).
Þjóðhagsspá spáir um 700 þúsund ferðamönnum hingað til lands í ár.