Lífið

Biðin eftir bón­orðinu endaði við gos­stöðvarnar

Sylvía Hall skrifar
Ólöf þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um þegar Sigurbjörn fór á skeljarnar við gosstöðvarnar.
Ólöf þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um þegar Sigurbjörn fór á skeljarnar við gosstöðvarnar. Eva Björk Ægisdóttir

Ólöf Helga Jónsdóttir var á leið með dóttur sinni í leikhús í morgun þegar unnusti hennar, Sigurbjörn Hlöðver Jóhannsson, tilkynnti henni að það yrði breyting á því plani þar sem hann ætlaði með hana í óvissuferð. Óvissuferðin stóð undir nafni og endaði hún með bónorði við gosstöðvarnar í Geldingadal.

„Síminn minn er eiginlega búinn að fara á hliðina,“ segir Ólöf í samtali við Vísi nú í kvöld. Hún segir þó trúlofunina sem slíka ekki óvænta enda hafi hún í raun verið tímabær. „Við erum búin að vera saman í sex ár og ég er búin að hinta að þessu nokkrum sinnum,“ segir hún og hlær.

Um tíma var útlit fyrir að planið færi í vaskinn þar sem veðurskilyrði voru slæm. Þau ákváðu að stytta sér stundir í millitíðinni, en fljótlega var gefið grænt ljós á þyrluflugið. Ólöf, sem hafði ekki hugmynd um hvað var í vændum, var þó ekki himinlifandi í fyrstu með flugið.

„Við keyrðum eitthvert út í bláinn og stigum um borð í þyrluna, mér til mikillar ánægju því ég er svolítið flughrædd og var ekkert sérlega ánægð með hann í byrjun. Ég var ekki jafn spennt og hann.“

„Við erum búin að vera saman í sex ár og ég er búin að hinta að þessu nokkrum sinnum,“Eva Björk Ægisdóttir

Einstök upplifun 

Sigurbjörn hafði verið í sambandi við Heli Austria varðandi flugið og var ljósmyndarinn Eva Björk Ægisdóttir með í för. Ólöf segist ekki hafa haft hugmynd um að þyrluferðin myndi enda með bónorði, þó ferðin hafi verið óvænt.

„Mig grunaði eiginlega ekki neitt fyrr en allir sem voru með okkur í þyrlunni og ljósmyndarinn voru voða mikið að taka okkur upp á meðan við vorum að horfa á eldgosið. Mér fannst það mjög óeðlilegt og spurði Sigurbjörn hvort hinir ættu ekki líka að fá að njóta þess að horfa á eldgosið.“

Ljósmyndarinn Eva Björk var með í för og náði mögnuðum myndum af gosinu í leiðinni.Eva Björk Ægisdóttir

Hún segir Sigurbjörn ekki vera óvæntan að eðlisfari, en honum hafi tekist vel til með bónorðið. Ólíkt öðrum í fjölskyldunni, sem hafi trúlofað sig fljótlega í sambandinu hafi hann tekið lengri tíma í það. „Hann beið bara eftir gosi,“ segir Ólöf og hlær.

Dagurinn hafi verið ævintýralegur í alla staði og segist hún ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um áður en hún svaraði bónorðinu játandi. 

„Þetta var mjög yndislegt og einstök upplifun.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.