Lífið

Steinhissa á því að allir bursti tennurnar líka á morgnana

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristlín hefur burstað sig einu sinni á dag í mörg ár og þá aðeins á kvöldin.
Kristlín hefur burstað sig einu sinni á dag í mörg ár og þá aðeins á kvöldin. Aðsend

„Ólst upp haldandi að maður tannburstaði bara áður en maður færi að sofa.. frétti síðan nýlega að það væri sick að bursta ekki á morgnanna og eftir óformlega könnun kemur í ljós að ALLIR tannbursta sig á morgnanna?? hvernig fór þetta framhjá mér? þarf ég að kæra foreldra mína??“

Þetta skrifar Kristlín Dís Ingilínardóttir, blaðamaður Fréttablaðsins, í færslu á Twitter og það er skemmst frá því að segja að viðbrögðin létu ekki á standa. Sumir kannast við þetta, aðrir alls ekki. 

„Ég vil meina að það sé nóg að bursta sig bara á kvöldin en fólk hefur heldur betur sterkar skoðanir á þessu máli,“ segir Kristlín Dís í samtali við Vísi og heldur áfram.

„Það er bara verið að taka mig af lífi af á Twitter en svo hefur maður fengið góðar undirtektir líka. Það er gott að sjá að það einhver þarna úti sem fékk líka svona lélegt uppeldi.“

Kristlín segist hafa rætt þetta mál við tannlækinn sinn fyrir einhverjum árum.

„Tannlæknir minn sagði að ef þú ætlar að gera annaðhvort þá er betra að bursta bara á kvöldin. En ég vil taka það skýrt fram að ég dæmi enga sem bursta kvölds og morgna eða bara á morgnana,“ segir Kristlín og hlær.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×