Innlent

Handtekinn vegna vopnaðs ráns í heimahúsi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Umræddur maður var handtekinn á staðnum.
Umræddur maður var handtekinn á staðnum. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um vopnað rán í heimahúsi. Lögreglan handtók geranda á staðnum og var hann vistaður í fangageymslu lögreglu vegna málsins. Málið er nú í rannsókn.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan tilgreindi hvorki hvenær umrætt rán átti að hafa átt sér stað né í hvaða hverfi höfuðborgarsvæðisins það var framið. Aðeins var greint frá því að Stöð 1 hafi fengið tilkynningu um málið en hún þjónustar Miðbæ, Austurbæ, Vesturbæ og Seltjarnarnes.

Í dagbókinni segir enn fremur að lögreglumenn Stöðvar 1 hafi haft tvo menn grunaða um rán í apóteki í Hlíðunum. Umræddir hafi verið farnir af vettvangi þegar lögreglan kom á staðinn og er málið í rannsókn.

Tilkynnt var um þjófnað í verslun í miðbænum. Viðkomandi var á staðnum þegar lögreglu bar að garði og var málið afgreitt með skýrslutöku.

Einn þeirra fjögurra bílstjóra sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af í gær og í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna reyndist vera réttindalaus. Hann var einnig með vopn á sér og var því kærður fyrir brot á vopnalögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×