Lífið

Hætt við Secret Solstice 2021 en blásið til stórtónleika

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Secret Solstice í Laugardalnum sem haldin hefur verið undanfarin ár, þó ekki í fyrra sökum kórónuveirufaraldursins.
Frá Secret Solstice í Laugardalnum sem haldin hefur verið undanfarin ár, þó ekki í fyrra sökum kórónuveirufaraldursins. Neon Photography

Ekkert verður af tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem fara átti fram í lok júní. Hefur hátíðinni verið frestað um ár eða til júní 2022. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lifandi viðburðum, skipuleggjendum hátíðarinnar.

„Vegna óvissu um samkomutakmarkanir næstu mánuði sáum við okkur það ekki fært að fara af stað með undirbúning hátíðar sem við vitum ekki hvort getur farið fram eins og við viljum að hún fari fram. Við höfum rætt við þá erlendu listamenn sem áttu að koma fram á hátíðinni í sumar og þeir eru allir reiðubúnir til þess að koma til Íslands sumarið 2022,“ segir Jón Bjarni Steinsson hjá Lifandi viðburðum.

Á heimasíðu Secret Solstice hafði verið tilkynnt að Cypress Hill, TLC og Primal Scream yrðu á meðal listamanna í sumar.

„Við munum samt ekki sitja auðum höndum í sumar heldur ætlum við að blása til sóknar þegar kemur að tónleikahaldi. Reykjavik Live tónleikaröðin sem fór fram í garðinum á Dillon allan júli síðasta sumar mun halda áfram. Við stefnum að því að halda í það minnsta 25 tónleika þar í sumar með flestum ef ekki öllum stærstu tónlistarmönnum Íslands í dag,“ segir Jón Bjarni.

Úr garðinum á Dillon þar sem Reykjavík Live fór fram síðasta sumar.Lifandi viðburðir

„Þá stefnum við að því að halda alla hliðarviðburði Secret Solstice hátíðarinnar sem eru haldnir inni í Langjökli og Raufarhólshelli og vonandi endurtökum við leikinn frá 2016 þegar Chino úr Deftones hélt órafmagnaða tónleika ofan í Þríhnúkagíg og setjum einhverja flotta íslenska listamenn þangað niður.“

Jón Bjarni bætir við að Nýja Laugardalshöllin hafi verið tekin frá laugardaginn 26. júní. Þar verði blásið til stórleika, tónleika allra tónleika eins og hann kemst að orði, með því besta sem íslenskir tónlistarmenn hafa upp á að bjóða. Ef Víðir leyfir, eins og Jón Bjarni segir.

„Í þakklætisskyni við alla þá fjölmörgu miðahafa hátíðarinnar sem hafa haldið á miðum sínum á Secret Solstice munu allir okkar miðahafar fá frítt inn á þetta vonandi fyrsta alvöru party ársins.“


Tengdar fréttir

Skipuleggjendur sumarhátíða eru bjartsýnir á þróun mála

Ef bólusetningar ganga jafn vel hérlendis og vonir standa til, eru skipuleggjendur bjartsýnir á að geta blásið til sumarhátíða. Þeir segjast þó hafa lært að gera ráð fyrir öllum mögulegum útkomum og eru við öllu búnir.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.