Innlent

Menntamálaráðherra tapaði í héraðsdómi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, um ógildingu úrskurðar kærunefndar jafnréttisnefndarmála vegna ráðningar ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytið.

Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála um að ráðherrann hafi brotið gegn jafnréttislögum þegar hún réð Pál Magnússon sem ráðuneytisstjóra árið 2019 stendur því óhögguð.

Íslenska ríkið var jafnframt dæmt til þess að greiða málskostnað Hafdísar Helgu Ólafsdóttur, sem kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála, að upphæð 4,5 milljónir króna.

Áslaug Árnadóttir, lögmaður Hafdísar Helgu, staðfestir niðurstöðuna í samtali við Vísi en fyrst var greint frá málinu á vef RÚV.

Hún var enn að lesa dóminn, sem er 41 blaðsíða á lengd, og vildi ekki tjá sig um efni hans að svo stöddu.

Það var í júní í fyrra sem kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að Lilja hefði brotið gegn jafnréttislögum þegar hún réð Pál sem ráðuneytisstjóra.

Páll var skipaður í embættið frá 1. desember 2019 en hann var lengi virkur í Framsóknarflokknum og hefur meðal annars starfað sem aðstoðarmaður ráðherra og bæjarritari Kópavogs.

Þegar tilkynnt var um ráðninguna kom fram að þrettán hafi sótt um stöðuna en ráðherra hefði metið það sem svo að Páll væri hæfastur umsækjenda vegna fjölþættrar menntunar og reynslu af stjórnunarstörfum hjá hinu opinbera.

Hæfisnefnd mat fjóra umsækjendur hæfasta og var Páll á meðal þeirra. Auk Páls var að finna tvær konur og einn karl í hópnum. Hafdís Helga, sem er skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, var ekki í þeim hópi.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×