Innlent

Tilbúin til að virkja allt sem virkja þarf ef þörf krefur

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Vísir/Sigurjón

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði eru tilbúin með allar viðbragðsáætlanir ef til eldgossins kemur. Bæjarstjórinn hefur hins vegar litlar áhyggjur og telur ólíklegt að hraun muni flæða inn í bæinn og hvetur til stillingar.

„Við fylgjumst auðvitað grannt með framvindu mála eins og allir aðrir. Við hjá Hafnarfjarðarbæ erum með virka neyðarstjórn í samráði við almannavarnanefnd svæðisins og við fylgjum þeirra stefnu og ákvörðunum,” segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Rýmingaráætlun sé til.

„Það er samræmd rýmingar- og viðbragðsáætlun til fyrir höfuðborgarsvæðið. En eins og staðan er núna er það ekki metið að til þess þurfi að koma að það þurfi að virkja hana. Hún er til og það verður auðvitað gripið til hennar ef þörf krefur.”

Hafnarfjörður er að miklu leyti byggður upp á hrauni en í næsta nágrenni er Krýsuvíkureldstöðin, sem er sú eldstöð sem stendur næst höfuðborgarsvæðinu. Rósa segir það ekki sérstakt áhyggjuefni að svo stöddu.

„Það er mat sérfræðinga núna eins og staðan blasir við að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Og ekki heldur því að þó það komi til goss á Reykjanesi að hraun fari að flæða hérna inn í byggðina hjá okkur. Það er alls ekki sviðsmyndin sem blasir við og við höldum bara ró okkar.”

Bærinn sé við öllu búinn. „Við erum tilbúin til að virkja allt sem virkja þarf ef þörf krefur,” segir Rósa .



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×