Innlent

Svona yrði brugðist við á Kefla­víkur­flug­velli í eld­gosi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Keflavíkurflugvöllur er vel staðsettur með tillit til eldgosa á Reykjanesskaga, að sögn Isavia.
Keflavíkurflugvöllur er vel staðsettur með tillit til eldgosa á Reykjanesskaga, að sögn Isavia. Vísir/vilhelm

Litlar líkur eru á að hraun loki Keflavíkurflugvelli komi til eldgoss. Öskufall er helsti áhrifaþáttur á völlinn.

Þetta kemur fram í svari Isavia við fyrirspurn fréttastofu um áhrif eldgoss á starfsemi Keflavíkurflugvallar. Vísindaráð almannavarna telur líklegustu skýringu jarðskjálftavirkninnar á Reykjanesskaga undanfarna daga vera þá að kvikugangur sé að myndast undir svæðinu þar sem mest jarðskjálftavirkni hefur verið.

Isavia segir að kæmi til eldgos á Reykjanesskaga yrðu áætlanir félagsins vegna eldgosa og öskufalls virkjaðar.

Þær feli í sér að tryggja öryggi og áframhaldandi rekstur. Vert sé að hafa í huga að í aðdraganda eldgoss verði flugrekendur að taka ýmsar ákvarðanir um sinn rekstur, færa til vélar og þess háttar. Þær ákvarðanir séu ekki á borðum Isavia.

„Við upphaf eldgoss er afmarkaður 120 sjómílna (220 km) hringur utan um eldstöðina sem er lokaður fyrir allri flugumferð, ef flugvöllurinn er innan þess svæðis verða ekki komur eða brottfarir á flugvellinum,“ segir Isavia.

Á sama tíma sé útbúin spá um öskusvæðið. Lokunarhringurinn verði tekinn af um leið og spáin liggi fyrir og flugrekendur ákveði hvort þeir vilji fljúga í gegnum spásvæðið.

Keflavíkurflugvöllur verði opinn meðan aðstæður leyfa en helsti áhrifaþáttur í því samhengi sé öskufall á vellinum. Lítil hætta stafi af hraunflæði.

„Keflavíkurflugvöllur er afar vel staðsettur með tilliti til hraunflæðis hann stendur hátt og litlar líkur eru á að hraun loki vellinum sjálfum, það gæti hins vegar lokað aðkomu að vellinum. Keflavíkurflugvöllur er vel búin með tilliti til varaafls og mikilvægar gagnaleiðir eru tvöfaldar.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.