Innlent

Mikil átök en engin merki um eldsumbrot

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Kristín Jónsdóttir er hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands. Hún telur líklegast að það dragi úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga á næstu dögum.
Kristín Jónsdóttir er hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands. Hún telur líklegast að það dragi úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga á næstu dögum. Vísir/Baldur

Tæplega 800 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga frá því á miðnætti samkvæmt töflu á vef Veðurstofu Íslands.

Sá stærsti varð klukkan 01:31 í nótt og mældist 4,9 að stærð. Hann fannst víða en upptökin voru 2,6 kílómetra suðvestur af Keili. Þá varð annar skjálfti 3,8 að stærð rétt fyrir klukkan hálfátta í morgun.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir að alls hafi um átta til níu skjálftar fundist á höfuðborgarsvæðinu í nótt og í morgun.

„Þannig að það hefur ekki dregið neitt úr þessu,“ segir Kristín í samtali við fréttastofu.

Hún segir virknina enn að mestu bundna við Keili og þá rétt sunnan við fjallið en einnig við Trölladyngju þó þar sé virknin mun minni.

Þá sé virknin ekki farin að færa sig austur fyrir Kleifarvatn í átt að Brennisteinsfjöllum en vísindamenn hafa varað við að á því svæði gæti orðið enn stærri skjálfti eða allt að 6,5 að stærð.

Fordæmi fyrir svona hrinum

Aðspurð hvort merki séu um eldsumbrot svarar Kristín neitandi.

„Þetta eru auðvitað mikil átök en við höfum ekki ástæðu til að halda á þessum tímapunkti að það sé neitt slíkt í gangi,“ segir hún.

Það var á miðvikudaginn í síðustu viku sem fyrsti stjóri skjálftinn í þessari hrinu varð en hann var 5,7 að stærð og er enn sá stærsti hingað til. Fjölmargir stórir skjálftar yfir fjórum að stærð hafa fylgt í kjölfarið.

Kristín segir að fordæmi séu fyrir svona hrinum í sögunni.

„Við erum með ágætar skráningar á skjálftum á síðustu öld og þá koma hrinur á sirka 25 ára fresti. Svona öflug hrina, við þurfum líklega að leita til haustsins 1973 eða jafnvel aftur til 1933 en það eru svona fordæmi einmitt um mikla skjálftavirkni við Fagradalsfjall,“ segir Kristín.

Hún segir erfitt að spá fyrir um framhaldið.

„Mér finnst nú líklegast að það fari að draga úr þessu á næstu dögum en ég held við verðum bara að spyrja að leikslokum.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.