Innlent

Gaslyktin í Vesturbænum kom til vegna efnafræðitilraunar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Vesturbær Reykjavíkur.
Vesturbær Reykjavíkur. Vísir/vilhelm

„Eru fleiri í Vesturbænum að finna sterka gaslykt úti við?“ svona hefst færsla sem rituð var í Facebook hópinn „Vesturbærinn.“ Nokkrir íbúar furðuðu sig á lyktinni og hvaðan hún kæmi.

„Já! Ég er margbúin að tékka á grillinu mínu. Er á Grenimel.“ segir ein í hópnum.

„Já fannst það svona svipað og hveralykt!?“ segir önnur.

Lyktin kom til vegna efnafræðitilraunar sem framkvæmd var á vegum Háskóla Íslands og fór hún fram í húsakynnum verkfræðideildar háskólans, VR II.

Guðmundur Guðmundsson, innivarðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu segir að háskólinn hafi látið slökkvilið vita af tilrauninni og að möguleg gaslykt gæti fylgt henni.

Tilrauninni er lokið og leggur Guðmundur áherslu á að engin hætta stafar af lyktinni þó hún geti verið sterk.

Þrifu upp eftir efnafræðislys

Efnafræðitilraunin gekk vel að sögn Guðmundar þrátt fyrir lítið óhapp.

„Það varð smá óhapp hjá þeim og dælubíll fór á vettvang til að aðstoða við þrif eftir efnafræðislys. Það brotnaði flaska og menn fóru inn í eitrunargalla og hjálpuðu til við þrif á staðnum,“ sagði Guðmundur.

Allir nemendur eru óhultir og engin hætta er á ferðum að sögn Guðmundar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.