Innlent

Skoðanabræðurnir Björn Leví og Ásmundur vilja leyfa ræktun lyfjahamps á Íslandi

Jakob Bjarnar skrifar
Píratar ráku upp stór augu í morgun þegar þeir flettu í Bændablaðinu og komust að því að Ásmundur Friðriksson er á alveg sömu línu og því að vilja opna fyrir hampinn til Íslands.
Píratar ráku upp stór augu í morgun þegar þeir flettu í Bændablaðinu og komust að því að Ásmundur Friðriksson er á alveg sömu línu og því að vilja opna fyrir hampinn til Íslands. samsett

Píratar halda því fram að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi komið úr skápnum sem hálfgildings Pírati í morgun.

Ásmundur er með í undirbúningi þings­ályktunartillögu um að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra, í samráði við hagsmunaaðila við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að setja á fót starfshóp sem hefur það hlutverk að útbúa frumvarp sem heimilar garðyrkjufyrirtækjum að sækja um leyfi fyrir ræktun lyfjahamps til kannabisræktunar og til framleiðslu og dreifingu á kannabislyfjum í lækningaskyni. Bændablaðið greinir frá þessu.

Ásmundur segir að stefna stjórn­valda og heilbrigðiskerfisins varðandi afstöðu til kannabis­efna hér á landi þarfnist umtalsverðrar umræðu og að grundvöllur sé skapaður til frekari rannsókna.

Samkvæmt heimildum Vísis klóruðu Píratar sér ákaft í kolli þegar þetta spurðist; í hvaða hliðræna veruleika það gæti gerst að Ásmundur væri á þessari línu. En Píratar og Ásmundur hafa lengi eldað grátt silfur. En nú eru allar fornar væringar grafnar og gleymdar.

„Þessar fréttir komu okkur ánægjulega á óvart, að Ásmundur skuli vera svona mikill Pírati inn við beinið,“ segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata í samtali við Vísi. Hann telur ljóst að náið samstarf með Halldóru Mogensen Pírata í velferðarnefnd Alþingis hafi haft góð áhrif á Ásmund.

„Píratar lögðu síðast fram tillögu um notkun og ræktun lyfjahamps árið 2018 enda þjóðþrifamál, en þá vildi Ásmundur ekki vera með. Þetta er því kærkomin u-beygja hjá honum og ekki við öðru að búast en að hann muni styðja CBD-málið hennar Halldóru þegar það kemur fyrir nefndina,“ segir Björn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×