Innlent

Mis­jafnt hvort at­vinnu­lausir og ör­yrkjar greiði lægri leik­skóla­gjöld

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikill munur er á leikskólagjöldum milli sveitarfélaga.
Mikill munur er á leikskólagjöldum milli sveitarfélaga. Vísir/vilhelm

Akureyri og Garðabær eru einu sveitarfélögin sem bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir atvinnulausa af þeim fimmtán sveitarfélögum sem úttekt verðlagseftirlits ASÍ náði til. Ekkert þeirra sveitarfélaga er með lægri skóladagvistunargjöld fyrir atvinnulausa en í Hafnarfirði og Mosfellsbæ eru afslættir af leikskólagjöldum reiknaðir út frá tekjuviðmiðum og geta atvinnulausir fallið undir þau viðmið.

Þetta kemur fram í samantekt ASÍ á leikskólagjöldum og gjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat. Þar segir að öll fimmtán sveitarfélögin bjóði upp á lægri leikskólagjöld fyrir forgangshópa en einungis fjögur þeirra bjóði upp á lægri gjöld fyrir skóladagvistun eða frístund. 

Forgangshópar greiða því í flestum tilfellum sömu gjöld og aðrir þegar börnin eru komin í grunnskóla. Einungis er boðið upp á lægri skóladagvistunargjöld fyrir forgangshópa í Kópavogi, Garðabæ, Akranesi og Seltjarnarnesi.

Ólíkir forgangshópar hjá sveitarfélögunum

Mjög misjafnt er hverjir tilheyra forgangshópum hjá sveitarfélögunum og greiða lægri gjöld. Algengast er að einstæðir foreldrar og námsmenn greiði lægri leikskólagjöld en fá sveitarfélög bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir öryrkja og atvinnulausa, að sögn verðlagseftirlits ASÍ.

„Hafa ber í huga að þrátt fyrir að sum sveitarfélög séu með afslætti fyrir forgangshópa en önnur ekki þýðir það ekki endilega að gjöldin séu lægri í sveitarfélögunum sem bjóða upp á afslætti,“ segir í greiningu verðlagseftirlitsins en gjöld fyrir forgangshópa í sumum sveitarfélögum geta til að mynda verið hærri en almenn gjöld í öðrum.

Í töflunni fyrir neðan má sjá hvaða hópar fá afslætti af leikskólagjöldum hjá sveitarfélögunum og hversu háir þeir eru en nánar má lesa um úttektina á vef ASÍ.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×