Innlent

„Vonin um kraftaverk lifir“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
John Snorri og Lína Móey þegar hann kom til landsins árið 2017 eftir að hafa toppað K2 að sumarlagi.
John Snorri og Lína Móey þegar hann kom til landsins árið 2017 eftir að hafa toppað K2 að sumarlagi. Lífsspor K2

Lína Móey Bjarnadóttir, eiginkona Johns Snorra Sigurjónssonar sem saknað hefur verið á fjallinu K2 í Pakistan í meira en viku, segir vonina um kraftaverk lifa.

Hún ítrekar þakkir til allra þeirra sem hafa tekið þátt í leitinni að John Snorra og þeim Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr, samferðamönnum hans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjölskyldu Johns Snorra. Leitin að þremenningunum hefur ekki enn borið árangur en yfirvöld í Pakistan hafa ákveðið að halda grunnbúðum opnum. Leit mun því halda áfram eftir því sem veður og aðstæður leyfa.

„Ég vil ítreka þakkir mínar til allra sem hafa tekið þátt í leitinni að þeim John Snorra, Ali og J Pablo. Leitin er mjög krefjandi og hefur verið stýrt af pakistönskum yfirvöldum og fagmennska borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hefur verið ómetanleg. Þeir félagar eru enn týndir en vonin um kraftaverk lifir. Hjörtu okkar, ástvina þeirra, slá með þeim,“ segir Lína Móey.

„Það er búið að vera ótrúlegt að finna þann kraft sem hefur verið í leitinni, bæði af hálfu íslenskra, pakistanskra og síleskra yfirvalda. Ekki síður hefur sú umhyggja og sá stuðningur sem fjöldi fólks hefur sýnt okkur styrkt fjölskylduna á þessum erfiðu tímum. Hjartans þakkir til ykkar allra.“

Í gær var greint frá því að fylgdar- og aðstoðarmenn Johns Snorra, Sadparas og Mohrs væru á heimleið.

Víðtæk leit hefur farið fram að göngumönnunum í fjallinu en þeirra hefur nú verið saknað í tíu daga. Gervihnattamyndir hafa verið skoðaðar, fjallið sjálft gengið að hluta og pakistanski herinn leitað úr lofti.

Vanessa O´Brien sem var í fylgdarliðinu sagði frá því í gær að svefnpokar, rifin tjöld og dýnur hafi fundist á fjallinu en engin ummerki um mennina þrjá.

Raja Nasir Ali Kahn, ferðamálaráðherrann á svæðinu sem hefur haft leitina á sínu borði, sagði frá því á Twitter að John Snorri hafi verið með tvö tæki, sem gefa frá sér staðsetningarupplýsingar, með sér á fjallinu og fartölvu að auki. Hann hafi skilið fartölvuna og annað staðsetningartækið eftir í grunnbúðunum á K2.

Hitt staðsetningartækið hafi hætt að senda frá sér merki 5. febrúar klukkan 7:13 að staðartíma og hafi hann þá verið í 7.843 metra hæð. Sajid hafi verið með honum á þeim tímapunkti en engin merki hafa borist frá tækinu síðan.

O´Brien sagði í gær að boðað yrði til blaðamannafundar í dag og að þar verði sérstaklega greint frá fréttum sem tengjast Ali Sadpara.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×