Innlent

Vef­verslun með á­fengi ekki leyfð sam­kvæmt nýju frum­varpi dóms­mála­ráð­herra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um breytingar á áfengislögum, var lagt fram á Alþingi í gær.

Þar er kveðið á um að smærri brugghúsum hér á landi verði leyft að selja öl á framleiðslustað en hins vegar er ekki að finna heimild til innlendrar netverslunar með vín í smásölu, líkt og gert var ráðið fyrir í drögum frumvarpsins.

Morgunblaðið fjallar um málið í dag en samkvæmt heimildum blaðsins má rekja þessa breytingu til andstöðu samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Vinstri grænna og Framsóknarflokks. Andstaðan er bæði innan ríkisstjórnarinnar og þingflokkanna að því er segir í Morgunblaðinu.

Í Morgunblaðinu segir að málið hafi velkst um í ríkisstjórn mánuðum saman og farið svo mjög hægt í gegnum þingflokka Framsóknar og VG. Innan þeirra raða lagðist meirihlutinn gegn innlendri vefverslun með áfengi.

Markmið þeirrar breytingar var að jafna stöðu innlendrar og erlendrar netverslunar þar sem íslenskir neytendur geta keypt sér áfengi á netinu í gegnum erlendar sölusíður og fengið sent heim.

Víðtækari stuðningur var hins vegar að gera undanþágu frá einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis hjá handverksbrugghúsum en sú breyting er séð sem styrktaraðgerð gagnvart ferðaþjónustunni og landsbyggðinni.

Fyrr í vikunni lögðu þingmenn Framsóknarflokksins raunar fram sitt eigið frumvarp varðandi smásölu hjá smærri brugghúsum en efni þess og orðalag svipar mjög til frumvarps dómsmálaráðherra.

Sá munur er þó á að í frumvarpi ráðherra eru ekki að finna nein hámörk varðandi það hversu mikið af áfengi brugghúsin mega selja viðskiptavinum sínum beint, líkt og finna má í frumvarpi Framsóknarflokksins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.