Innlent

Mun fleiri „konur“ en „karlar“ breytt skráningu í kynsegin/annað

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Opnað var fyrir hlutlausa skráningu kyns í lögum um kynrænt sjálfræði, sem tóku gildi árið 2019.
Opnað var fyrir hlutlausa skráningu kyns í lögum um kynrænt sjálfræði, sem tóku gildi árið 2019. Pexels/Sharon McCutcheon

Fjórtán hafa fengið kynskráningu sinni breytt hjá Þjóðskrá Íslands eftir að opnað var fyrir þann möguleika að velja „kynsegin/annað“ eftir áramót.

Þrettán einstaklingar sem áður voru skráðir „kona“ hafa fengið skráningunni breytt í „kynsegin/annað“ og einn einstaklingur sem áður var skráður „karl“.

Kveðið er á um heimild til hlutlausrar skráningar kyns í 6. grein laga nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði, sem tóku gildi 6. júlí 2019. Þar segir meðal annars að opinberum aðilum og einkaaðilum sem skrá kyn beri að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu, til dæmis á skilríkjum, eyðublöðum og í gagnasöfnum.

Þá skuli skráningin táknuð á óyggjandi hátt.

„Í vegabréfum skal ávallt tákna hlutlausa skráningu kyns með bókstafnum X,“ segir meðal annars í lögunum.

Breytingin er aðeins heimil einu sinni nema sérstakar ástæður séu til annars, nema í tilvikum einstaklinga undir 18 ára aldri.

Nokkur styr stóð um innheimtu gjalds fyrir breytinguna en Þjóðskrá benti á það fyrr í mánuðinum að sama gjald, níu þúsund krónur, væri innheimt fyrir breytingu á nafni og leiðréttingu á kyni. 

Þá stæði einstaklingum til boða að breyta bæði nafni og leiðrétta kyn fyrir eitt gjald, það er að segja níu þúsund krónur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×