Útkallið barst klukkan 06:40 og var allt tiltækt slökkvilið sent á staðinn auk þriggja sjúkrabíla. Mikill eldur var í húsinu þegar slökkviliðið kom á vettvang.
Að neðan má sjá myndskeið sem Sigurjón Ólason, tökumaður Stöðvar 2, tók á vettvangi.
„Þetta var mjög mikið. Það logaði út um stafninn og út um glugga hér í vestri. Húsið var í rauninni alelda þegar við komum,“ sagði Árni Ómar Árnason, varðstjóri hjá slökkviliðinu, í beinni útsendingu í fréttum Bylgjunnar klukkan átta í morgun.

Enginn var inni í húsinu þegar slökkviliðið kom á vettvang heldur var sá eini sem hafð verið inni kominn út.
Grunur er um að hann hafi fengið reykeitrun og var honum sinnt af sjúkraflutningamönnum sem komu á vettvang.
Árni Ómar sagði eldinn hafa verið mjög mikinn þegar slökkvilið kom á vettvang.
„Það logaði út um alla glugga. Þetta var mjög mikið.“

Hann sagði slökkvilið nú búið að slökkva allan eld en vinnu á vettvangi er þó ekki lokið. Rífa þurfi að innan og komast upp á þakið en það sé nokkuð bratt og því erfitt að vinna á því.
Árni Ómar sagðist búast við því að enn væru nokkrir klukkutímar eftir við vinnu á staðnum hjá slökkviliðinu.

Ekki er vitað hvar í húsinu eldurinn kom upp. Lögreglan beinir því til íbúa í hverfinu að loka gluggum og hækka á ofnum vegna reyksins sem liggur frá húsinu.

Þá segir á vef Strætó að búið sé að loka Jafnaseli vegna brunans. Leiðir 3 og 4 geta því ekki ekið Jaðarselið og fara þær því um Seljabraut, Seljaskóga og Hjallasel til að komast inn á leið.
Hér fyrir neðan má sjá myndband sem tekið var við vettvang í morgun.
Fréttin var uppfærð klukkan 08:11.