Innlent

Loðnuráðgjöf leiðrétt til hækkunar

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Loðnuráðgjöf vertíðarinnar hefur verið leiðrétt.
Loðnuráðgjöf vertíðarinnar hefur verið leiðrétt. Getty/Craig F. Walker/The Boston Globe

Loðnuráðgjöf vegna vertíðarinnar 2020/21 hefur verið leiðrétt eftir að villa kom í ljós við úrvinnslu gagna við endurútreikninga loðnumælinga hjá Hafrannsóknastofnun.

Endurútreikningurinn er í samræmi við gæðaferla stofnunarinnar en í ljós kom að villa við úrvinnslu á bergmálsmælingum á stærð hrygningarstofns loðnu í vikunni. Hefur villan nú verið leiðrétt sem leiðir til hækkunar um 19 þúsund tonn en þetta þýðir að leiðrétt loðnuráðgjöf um afla á vertíðinni 2020 og 2021 er 61 þúsund tonn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun í dag sem sjá má í heild sinni hér að neðan:

„Við endurútreikninga loðnumælinga samkvæmt gæðaferlum Hafrannsóknastofnunar kom í ljós villa við úrvinnslu á bergmálsmælingum á stærð hrygningarstofns loðnu í vikunni sem hefur nú verið leiðrétt. Niðurstaða þeirrar mælingar hækkaði um 19 þúsund tonn, eða upp í 338 þúsund tonn. Þetta þýðir að leiðrétt loðnuráðgjöf um afla á vertíðinni 2020/21 er 61 þúsund tonn.

Eins og fram hefur komið áður er grunnur ráðgjafarinnar mat á stærð hrygningarstofns loðnu sem er byggt á meðaltali tveggja mælinga. Annars vegar á niðurstöðum bergmálsleiðangurs í desember og hins vegar á samanlögðum niðurstöðum tveggja bergmálsleiðangra í janúar.

Fyrri mælingin í janúar, upp á samtals 144 þúsund tonn, var takmörkuð að því leiti að engar mælingar voru gerðar í Grænlandssundi sökum hafíss. Enn fremur var magn loðnu á austur hluta svæðisins langt undir því sem mældist í desember. Seinni mælingin í janúar var á afmörkuðu svæði úti fyrir Austfjörðum, og þar mældust um 338 þúsund tonn. Yfirgnæfandi líkur eru á að loðnan austan við land hafi ekki verið hluti af mælingunni fyrr í mánuðinum og því eru þessar tvær mælingar teknar saman en þær gefa mat upp á 482 þúsund tonn og metnar til jafns á við mælinguna frá desember við mat á stærð stofnsins.

Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150 000 tonnum að teknu tilliti til afráns. Saman minnka þessar mælingar óvissu í stofnmati og samkvæmt því leiðir þessi mæling til leiðréttrar veiðiráðgjafar upp á 61 þúsund tonn veturinn 2020/21 og kemur í stað fyrri ráðgjafar frá 22. janúar.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.