Innlent

Jóna Þórey vill á þing fyrir Samfylkinguna

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Jóna Þórey Pétursdóttir.
Jóna Þórey Pétursdóttir. AÐSEND

Jóna Þórey Pétursdóttir ætlar að gefa kost á sér á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Jóna Þórey segir frá þessu í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í dag. Þar segir hún að mikilvægt sé að ungt fólk hafi málsvara í forystusætum framboðslista og taki virkan þátt í pólitík.

„Sem forseti Stúdentaráðs tók ég þátt í skipulagningu loftslagsverkfallanna á Íslandi og beitti mér fyrir raunverulegum aðgerðum í loftslagsmálum. Ég vil halda áfram þeirri baráttu sem þingkona og vel Samfylkinguna vegna þess að hún er sá stjórnmálaflokkur sem er tilbúinn að gera það sem þarf til að hefja kraftmikla græna uppbyggingu á Íslandi,“ segir Jóna Þórey.

„Með reynsluna af hagsmunabaráttu stúdenta í farteskinu er ég líka sannfærð um að hagsmunum námsfólks sé best borgið með Samfylkinguna í forystu og ungu fólki í leiðandi hlutverki. Stjórnvöld hafa hvorki brugðist við ákalli ungs fólks um aukið afkomuöryggi og bætt kjör, né þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir vegna hamfarahlýnunar. Á næsta kjörtímabili stefnir í endurskoðun á nýjum lögum um Menntasjóð námsmanna og þar er verk að vinna.“

„Þá er ljóst að velferðarkerfið er götótt og fjöldi fólks á öllum aldri lendir milli skips og bryggju. Vilji Samfylkingarinnar til að gera betur í velferðarmálum er áþreifanlegur og þessum málstað þarf að halda á lofti. Leiðarljós jafnaðarstefnunnar duga best til að skapa réttlátt samfélag þar sem við sitjum öll við sama borð.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×