Innlent

Enn engar til­kynningar um ný flóð á Trölla­skaga

Atli Ísleifsson skrifar
Snjóflóð féll á skíðaskálann og skíðaleiguna í Skarðsdal í Siglufirði í gær.
Snjóflóð féll á skíðaskálann og skíðaleiguna í Skarðsdal í Siglufirði í gær. SKÍÐASVÆÐIÐ SKARÐSDAL

Veðurstofunni hafa enn ekki borist nýjar tilkynningar um að ný snjóflóð hafi fallið í Siglufirði eða annars staðar á Tröllaskaga. Beðið er eftir að birti til að hægt sé að taka betur stöðuna, en margir vegir á svæðinu eru sem stendur lokaðir og því ekki útilokað að flóð hafi fallið.

Þetta segir Harpa Grímsdóttir, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni í samtali við Vísi í morgun. Hún segir skaplegt veður hafi verið á svæðinu, ekki mikil úrkoma en einhver skafrenningur til fjalla. Vel verði fylgst með svæðinu í dag.

Hættustigi var lýst yfir vegna snjóflóðahættu á Siglufirði í gær og ákveðið að rýma nokkur hús undir Strengsgiljum. Mörg snjóflóð féllu í gær og síðustu daga á svæðinu frá Siglufirði og inn að Dalvík, þar með talið stórt snjóflóð sem féll á skíðasvæðinu á Siglufirði og skemmdi skíðaskálann þar. Óvissustigi vegna snjóflóðahættu er í gildi á Norðurlandi.


Tengdar fréttir

Hækka viðbúnaðarstig og rýma svæði á Siglufirði

Veðurstofa Íslands hefur hækkað viðbúnaðarstig í hættustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi. Ákveðið hefur verið að rýma svæði sem er syðst á Siglufirði og mun lögregla hafa samband við fólkið sem þarf að yfirgefa heimili sín.

Skíðaskáli Siglfirðinga færðist úr stað í snjóflóði

Snjóflóð féll á skíðasvæðinu á Siglufirði, sennilega í morgun. Egill Rögnvaldsson svæðisstjóri skíðasvæðisins segir í samtali við fréttastofu að erfitt sé að átta sig á umfangi flóðsins en mikill skafrenningur er á svæðinu og þurftu menn frá að hverfa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×