Fótbolti

Jafnaði, fiskaði Messi út af og lék á trompet í fagnaðarlátunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Asier Villalibre blæs í trompetinn.
Asier Villalibre blæs í trompetinn. getty/RFEF - Poo

Asier Villalibre kom mikið við sögu þegar Athletic Bilbao sigraði Barcelona, 2-3, eftir framlengingu í spænska ofurbikarnum í gær. Hann jafnaði í 2-2, fiskaði Lionel Messi af velli og lék svo á trompet í fagnaðarlátum Bilbæinga eftir leikinn.

Antoine Griezmann kom Barcelona yfir á 40. mínútu í leiknum í gær sem fór fram í Sevilla. Forystan entist ekki lengi því á 42. mínútu jafnaði Óscar de Marcos fyrir Athletic Bilbao og staðan í hálfleik var 1-1.

Griezmann kom Börsungum öðru sinni yfir á 77. mínútu og það mark virtist ætla að duga þeim til sigurs. En Bilbæingar áttu ás upp í erminni.

Á lokamínútunni jafnaði Villalibre fyrir Athletic Bilbao eftir aukaspyrnu frá Iker Munain og því þurfti að framlengja. Villalibre hafði komið inn á sem varamaður á 83. mínútu.

Framlengingin var aðeins þriggja mínútna gömul þegar Inaki Williams kom Athletic Bilbao yfir í fyrsta sinn í leiknum, 2-3.

Börsungum tókst ekki að skora jöfnunarmark á þeim 27 mínútum sem eftir voru af framlengingunni og mótlætið virtist fara í taugarnar á Messi. Argentínumaðurinn fékk rautt spjald í uppbótartíma framlengingarinnar fyrir að slá til Villalibre. Þetta er í fyrsta sinn sem Messi er rekinn af velli sem leikmaður Barcelona.

Leikmenn Athletic Bilbao fögnuðu sigrinum vel og innilega enda ekki á hverjum degi sem Baskarnir vinna titil. Villalibre spilaði meðal annars á trompet í fagnaðarlátunum eins og sjá má hér fyrir neðan.

Þetta er í þriðja sinn sem Athletic Bilbao fagnar sigri í spænska ofurbikarnum. Liðið vann keppnina einnig 1984 og 2015.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.