„Já, þetta voru svolítið vonbrigði þar sem við hópurinn erum komnir með mestu hæðaraðlögunina og erum búnir að vera mikið í fjallinu. Þannig að við erum allir þrír mjög ósáttir með þetta. Því við hefðum getað farið á toppinn en tókum ekki áhættuna því veðrið var tvísýnt,“ segir John Snorri í samtali við Vísi úr Broad Peak-grunnbúðunum á K2.
Fyrirséð var að vindur yrði 60 km/klst á toppnum og frost allt niður í fimmtíu stig.
„Þá er þetta orðið mikil áhætta og þeir tóku mikla áhættu. En vonbrigðin voru mikil og þetta var mjög erfitt. Ég var að koma niður úr búðum tvö þegar ég frétti að þeir ætluðu að reyna að halda áfram upp á toppinn. Þannig mér fannst leiðinlegt að vera að fara niður af fjallinu þegar þeir voru að fara upp á topp.“
Horfa til veðurglugga seint í janúar
Þá segir John Snorri að teymi hans og sjerpahópurinn, sem náði að endingu upp á topp í gær, hafi talað um að vinna saman í fjallinu.
„Sem við vorum búnir að gera. Og við vorum komnir upp með 700 metra af línu til að leggja í flöskuhálsinn og undir íshengjuna. Þannig það voru vonbrigði að það skyldi ekki hafa verið rætt við okkur síðustu tvo dagana. Þetta var svolítið sérstakt að hafa allt í einu ákveðið að skjóta sér upp á toppinn.“
John Snorri segir að hann og hópur hans stefni enn á toppinn.
„Já, við ætlum að reyna að nýta okkur veðurglugga seinna í janúar. 25., 26. og 27. janúar líta vel út núna en þetta breytist mjög hratt,“ segir John Snorri.
„En við erum tilbúnir um leið og kemur möguleiki á því að komast á toppinn. Þá getum við farið upp að búðum tvö, í búðir þrjú og svo úr búðum þrjú á toppinn á K2. Og við getum verið mjög fljótir á toppinn.“
Sorg í grunnbúðunum
En sorgin einkennir líka andrúmsloftið á fjallinu þessa dagana. Sergi Mingote, spænskur fjallagarpur, fórst á fjallinu um helgina, og þá aðstoða John Snorri og félagar hans við leit að Bandaríkjamanni.
„Hann var rétt á eftir mér í gær og hrapaði niður 600 metra og lést. Svo erum við núna niðri í grunnbúðunum og höfum verið að leita hérna með dróna að manni frá Bandaríkjunum. Svo kemur þyrla í fyrramálið, sem við förum með að leita áfram. Þannig að það er sorg hérna í Broad Peak-grunnbúðunum og á K2. Fólk er að velta fyrir sér hvort það eigi að halda áfram eða hætta. Það kemur í ljós næstu daga.“