Innlent

Vegfarendur náðu fólki úr bíl sem fór í sjóinn í Skötufirði

Sylvía Hall og Birgir Olgeirsson skrifa
Þrír voru í bílnum sem hafnaði í sjónum í vestanverðum Skötufirði á ellefta tímanum.
Þrír voru í bílnum sem hafnaði í sjónum í vestanverðum Skötufirði á ellefta tímanum. Vísir/Datawrapper

Viðbragðsaðilar voru kallaðir út vegna slyss í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi á Vestfjörðum vegna tilkynningar um bíl sem fór í sjóinn á ellefta tímanum í morgun. Þrír voru í bílnum. 

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir vegfarendur hafa verið fyrsta á vettvang og náð fólkinu upp úr sjónum. Hann segir mikið þrekvirki hafa verið unnið við erfiðar aðstæður en vegfarendurnir veittu fyrstu hjálp á vettvangi. 

„Fólkið er komið í land. Það voru vegfarendur sem voru fyrstir á staðinn og eru búnir að aðstoða á vettvangi og veita fyrstu hjálp þar til fyrstu viðbragðaðilar komu um klukkutíma eftir að slysið var tilkynnt,“ segir Rögnvaldur en tilkynning barst klukkan 10:16.

Að sögn Rögnvaldar voru ekki fleiri í bílnum. 

Lögregla, sjúkrabílar og björgunarskip eru komin á vettvang en búist er við því að fyrsta þyrla frá Landhelgisgæslunni lendi nú rétt fyrir tólf með kafara og lækna. Tvær þyrlur voru kallaðar út vegna slyssins.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfesti í samtali við fréttastofu að báðar þyrlurnar hafi verið kallaðar út vegna slyss.

„Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið kallaðar út vegna slyss í Skötufirði að beiðni lögreglunnar á Vestfjörðum.“

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu vegna slyssins skömmu eftir klukkan tólf þar sem segir að fjölmennt lið viðbragðsaðila hafi verið sent á vettvang. Samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð vegna slyssins. 

Samkvæmt upplýsingum er flughálka á veginum, lágskýjað og hægur vindur.

„Í fyrstu upplýsingum kom fram að bifreið hefði fari útaf veginum og í sjóinn og að þrennt hafi verið í bílnum. Vinna viðbragðsaðila er í gangi á vettvangi og báðar þyrlurnar komnar á staðinn. Búið er að ná fólkinu í land og komið í sjúkrabíla.“

Fréttin hefur verið uppfærð. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×