Innlent

Reynt að koma í veg fyrir að tíu þúsund lítrar af díselolíu leki í sjóinn

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Fóðurpramminn marraði í hálfu kafi þegar áhöfn Landhelgisgæslunnar kom að í gærkvöldi. Hann sökk svo í nótt.
Fóðurpramminn marraði í hálfu kafi þegar áhöfn Landhelgisgæslunnar kom að í gærkvöldi. Hann sökk svo í nótt. Landhelgisgæslan

Mikið tjón varð hjá fiskeldisstöðinni Löxum þegar fóðurprammi sem sér um fóðrun 16 fiskeldiskvía sökk í nótt í aftakaveðri. Í prammanum eru tíu þúsund lítrar af díselolíu. Framkvæmdastjóri Laxa segir að viðbragðsteymi sé á svæðinu með búnað ef olían fer að leka frá prammanum.

Áhöfnin á varðskipinu Þór var kölluð út í gærkvöldi þegar mikill leki kom að stórum fóðurpramma sem þjónar fiskeldiskvíum Laxa fiskeldis í Reyðarfirði, en skipið var í nágrenninu. Vonskuveður er á svæðinu og aðstæður afar krefjandi. Þegar áhöfnin á Þór kom á staðinn var ekkert hægt að gera samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.  Pramminn var þá orðinn fullur af sjó og maraði í kafi.  Umhverfisstofnun, Samgöngustofu og fleiri viðeigandi aðilum var gert viðvart en um tíu þúsund lítrar af díselolíu eru um borð.

Jens Garðar Helgason framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis segir að aftakaveður hafi verið á svæðinu í gær sem skýri óhappið.

Jens Garðar Helgason framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis segir að aftakaveður hafi verið á svæðinu í gær sem skýri óhappið.Vísir

„Það var mikið frost og vindhraði tugir metra á sekúntu í gær. Það sem virðist hafa gerst er að það fer ísing á prammann og hann fer að halla og það fer sjór inní hann. Það voru krefjandi aðstæður þannig að við komumst ekki út strax en létum alla viðbragðsaðila vita af málinu. Varðskipið Þór var í nágrenninu og komu fljótt á staðinn. Það var þó lítið hægt að gera og pramminn sökk um klukkan hálf fjögur í nótt,“ segir Jens. 

Í prammanum eru um tíu þúsund lítrar af díselolíu og segir Jens nú kapp lagt á að koma í veg fyrir að olían fari í sjóinn. 

„Viðbragðsaðilar eru Fjarðabyggðahafnir, slökkvilið og Landhelgisgæslan og aðilar þaðan komu á svæðið í morgun  með búnað ef olía fer að leka út í sjó,“ segir Jens.

Jens segir þetta gríðarlegt tjón fyrir fyrirtækið en pramminn sér um að fóðra um 16 fiskeldissjókvíar á svæðinu. 

„Fóðurbyssur verða í framhaldinu notaðar til að fóðra fiskinn, segir Jens. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu  eru kafarar frá Köfunarþjónustunni á leið til Reyðarfjarðar til að meta hvernig hægt verður að koma prammanum á flot.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu lægði í morgun á svæðinu en búist er við öðrum hvelli klukkan tvö í dag. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×