Innlent

Til­kynnt um annað til­vik al­var­legra auka­verkana í kjöl­far bólu­setningar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tveir sérfróðir og óháðir læknar rannsaka nú alvarlegar aukaverkanir sem tilkynnt hefur verið um í kjölfar bólusetningar. 
Tveir sérfróðir og óháðir læknar rannsaka nú alvarlegar aukaverkanir sem tilkynnt hefur verið um í kjölfar bólusetningar.  Getty

Ein tilkynning hefur borist til Lyfjastofnunar um andlát eftir bólusetningu gegn Covid-19 til viðbótar við þær fjórar tilkynningar sem greint var frá fyrr í vikunni. Um er að ræða aldraða manneskju sem var bólusett í lok desember en lést fyrir skömmu.

Sex tilkynningar hafa nú borist lyfjastofnun um alvarleg atvik, þar af fimm andlát, þar sem um var að ræða hugsanlegar aukaverkanir af bólusetningu Comirnaty, bóluefnis Pfizer og BioNTech.

Haft er eftir Rúnu Hauksdóttur Hvannberg, forstjóra Lyfjastofnunar, í frétt RÚV, að metið verði hvort andlátið geti tengst bólusetningunni. Meira en vika sé liðin á milli bólusetningarinnar og andlátsins.

Tilkynnt var á þriðjudaginn að tveir sérfróðir og óháðir læknar á sviði öldrunar muni rannsaka gaumgæfilega þessi alvarlegu atvik sem hafa verið tilkynnt Lyfjastofnun. Stefnt sé að því að frumniðurstöður liggi fyrir innan viku til tíu daga.

Tilgangur rannsóknarinnar sé að meta hvort líklegt sé að atvikin tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum. Eins og sakir standa bendir ekkert til þess að beint orsakasamhengi sé á milli atvikanna og bólusetningarinnar.


Tengdar fréttir

„Þetta bóluefni er mjög öruggt“

Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítalans og prófessor í ónæmisfræði, segir ekkert benda til þess að meiri áhætta fylgi bóluefni Pfizer við kórónuveirunni en öðrum bóluefnum. Það sé gríðarlega mikilvægt að fólk láti bólusetja sig, enda muni það bjarga mannslífum.

Tveir sérfróðir læknar rannsaka alvarlegu atvikin fimm

Tveir sérfróðir og óháðir læknar á sviði öldrunar munu rannsaka gaumgæfilega fimm alvarleg atvik, þar af fjögur andlát, sem tilkynnt var um sem hugsanlegar aukaverkanir af bólusetningu við kórónuveirunni. Stefnt er að því að frumniðurstöður liggi fyrir innan viku til tíu daga.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.