Innlent

Kvörtunum til landlæknis fjölgar mikið

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Alma Möller er landlæknir.
Alma Möller er landlæknir. Vísir/Vilhelm

Kvörtunum til Landlæknis frá sjúklingum og aðstandendum vegna heilbrigðisþjónustu fjölgaði um nærri fjórðung í fyrra. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Voru þær 163 um miðjan desember samanborið við 132 fyrir allt árið 2019. Á árunum 2014 til 2018 voru kvartanir á bilinu 104 til 122 talsins. Hægt er að kvarta ef talið er að mistök eða vanræksla hafi átt sér stað.

Kjartan Hreinn Njálsson, upplýsingafulltrúi Embættis landlæknis, segir ekki ljóst hvers vegna kvörtunum sé að fjölga.

Líkleg skýring gæti verið sú að almennt sé betri þekking á heimildum sjúklinga og ættingja til að kvarta til Embættis landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu, sem og aukin aðkoma lögmanna fyrir hönd þeirra sem kvarta, segir Kjartan í samtali við blaðið. Hann bætir því við að engin sérstök greining hafi þó farið fram innan embættisins á þessu.

Í blaðinu segir einnig að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafi lagt fram drög að breytingum á lögum um Embætti landlæknis sem eiga að gera kvörtunarheimildir og málsmeðferð skýrari, einfaldari og draga úr kostnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×