Umrætt afbrigði veirunnar greindist fyrst í Bretlandi fyrir nokkrum vikum og hefur valdið miklum usla þar. Talið er að það sé allt að 70 prósent meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar.
Sautján hafa greinst með afbrigðið á Íslandi, þar af einn innanlands. Sú manneskja var þó nátengd annarri sem greinst hafði á landamærum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna að lagt sé upp með það hjá smitrakningarteymi almannavarna að haft sé frekara eftirlit með ferðamönnum sem koma frá Bretlandi, einkum í ljósi þess að einn hafi greinst með afbrigðið innanlands.
„Að við reynum að hafa aukið eftirlit, gefa fólki sem greinist á landamærunum með þetta breska afbrigði ítarlegar upplýsingar og fylgjast með þeirra líðan kannski betur en ella. Þannig að við erum með það bara undir smásjá, getum við sagt,“ sagði Þórólfur.
Utanríkisráðuneytið birti í gær orðsendingu á Facebook-síðu sinni þar sem fólki sem ferðast frá Íslandi er ráðlagt að forðast ferðalög í gegnum Bretland.
„Áréttað er að í mörgum Evrópuríkjum er í gildi bann við landgöngu ferðafólks frá Bretlandi vegna hraðrar útbreiðslu nýs afbrigðis af COVID-19 sem þar hefur greinst. Þetta hefur áhrif á þau sem fljúga frá Íslandi til annarra landa með millilendingu í Bretlandi,“ segir í færslunni.