Innlent

Þau sem greinast með breska afbrigðið eru „undir smásjá“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Móttökusalur Keflavíkurflugvallar. Sautján hafa greinst með breska afbrigðið svokallaða á landamærunum.
Móttökusalur Keflavíkurflugvallar. Sautján hafa greinst með breska afbrigðið svokallaða á landamærunum. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir segir að aukið eftirlit sé haft með ferðalöngum frá Bretlandi á landamærum vegna hins svokallaða breska afbrigðis kórónuveirunnar. Mjög vel sé fylgst með þeim sem greinast með afbrigðið hér á landi.

Umrætt afbrigði veirunnar greindist fyrst í Bretlandi fyrir nokkrum vikum og hefur valdið miklum usla þar. Talið er að það sé allt að 70 prósent meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar.

Sautján hafa greinst með afbrigðið á Íslandi, þar af einn innanlands. Sú manneskja var þó nátengd annarri sem greinst hafði á landamærum.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.Vísir/vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna að lagt sé upp með það hjá smitrakningarteymi almannavarna að haft sé frekara eftirlit með ferðamönnum sem koma frá Bretlandi, einkum í ljósi þess að einn hafi greinst með afbrigðið innanlands.

„Að við reynum að hafa aukið eftirlit, gefa fólki sem greinist á landamærunum með þetta breska afbrigði ítarlegar upplýsingar og fylgjast með þeirra líðan kannski betur en ella. Þannig að við erum með það bara undir smásjá, getum við sagt,“ sagði Þórólfur.

Utanríkisráðuneytið birti í gær orðsendingu á Facebook-síðu sinni þar sem fólki sem ferðast frá Íslandi er ráðlagt að forðast ferðalög í gegnum Bretland.

„Áréttað er að í mörgum Evrópuríkjum er í gildi bann við landgöngu ferðafólks frá Bretlandi vegna hraðrar útbreiðslu nýs afbrigðis af COVID-19 sem þar hefur greinst. Þetta hefur áhrif á þau sem fljúga frá Íslandi til annarra landa með millilendingu í Bretlandi,“ segir í færslunni.


Tengdar fréttir

Landlægt útgöngubann kemur til greina í Englandi

Enn þarf að herða sóttvarnaraðgerðir í Englandi til að hægja á og stöðva dreifingu nýs afbrigðis nýju kórónuveirunnar þar í landi. Þetta sagði Matt Hancock, heilbrigðisráðherra landsins, í morgun en í gær voru tilkynnt tæplega 55 þúsund ný tilfelli og hafa rúmlega 75 þúsund manns dáið vegna faraldursins.

Einn greinst með breska afbrigðið innanlands

Alls hafa sautján einstaklingar greinst með hið svokallaða breska afbrigði kórónuveirunnar hér á landi. Þar af er einn sem greindist innanlands með afbrigðið en sú manneskja var nátengd annarri sem hafði greinst á landamærunum.

Breska afbrigðið komið til Grikklands

Fjórir einstaklingar hafa greinst með hið svokallaða „breska afbrigði“ kórónuveirunnar í Grikklandi. Um er að ræða afbrigði sem talið er meira smitandi en flest önnur afbrigði veirunnar, og var uppgötvað í Bretlandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.