Innlent

Eftir­lýstur maður gaf sig fram á ný­árs­nótt

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Nóttin var nokkuð erilsöm hjá lögreglu.
Nóttin var nokkuð erilsöm hjá lögreglu. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast þessa liðna nýársnótt ef marka má dagbókarfærslu hennar sem send var fjölmiðlum. Talsvert var um ölvunarakstur og hávaðakvartanir, samkvæmt lögreglu.

Klukkan 00:45 hringdi maður í lögregluna og kvaðst vera eftirlýstur. Það reyndist rétt og var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar sakamáls, samkvæmt dagbók. Skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt var þá tilkynnt um líkamsárás í austurborginni. Nokkrir menn höfðu þá ráðist á einn og voru meintir gerendur handteknir nálægt vettvangi en lögregla er nú með málið til rannsóknar.

Þá var klukkan að verða fjögur þegar lögreglu barst tilkynning um hóp fólks sem vildi komast í partí á hóteli í Reykjavík. Starfsmenn hótelsins kváðu hámarksfjölda vera í herberginu og þurftu partíþyrstir gestir því að leita annað.

Handteknir vegna slagsmála

Þegar um tuttugu mínútur voru liðnar af árinu 2021 barst lögreglu þá tilkynning um aðila sem skutu flugelda í átt að húsum. Þeir voru þó farnir þegar lögreglu bar að garði.

Þá var klukkan 03:50 tilkynnt um slagsmál í fjölbýlishúsi. Lögregla var með talsverðan viðbúnað vegna útkallsins og voru tveir handteknir á vettvangi. Annar þeirra þurfti að leita sér aðhlynningar á slysadeild. Lögregla rannsakar nú málið samkvæmt dagbók.

Þá var upp úr klukkan sex í morgun tilkynnt um mann liggjandi utandyra í snjóskafli. Þegar lögregla hafði afskipti af honum á hann þó að hafa hlaupið á brott og kveðst lögregla ekki hafa aðhafst frekar í málinu þar sem maðurinn hafði ekki verið sakaður um nokkuð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.