Innlent

Vanga­veltur Elliða um nýtt merki Sam­fylkingarinnar hljóta mis­jafnar undir­tektir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Elliði Vignisson segir það vera hagsmuni Vestmannaeyinga sem skipta máli.
Elliði Vignisson segir það vera hagsmuni Vestmannaeyinga sem skipta máli. Vísir

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, telur nýju merki Samfylkingarinnar svipa til nokkurra merkja nasista sem notuð hafa verið í gegnum tíðina. Þessar vangaveltur viðrar Elliði í Facebook-færslu í dag en hlýtur misjafnar undirtektir. Margir telja þar nokkuð langt seilst.

Samfylkingin fagnar 20 ára afmæli sínu í dag og svipti í tilefni þess hulunni af nýju merki flokksins. Áður hafði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sent flokknum hamingjuóskir og líkt nýja merkinu við merki Byggðastofnunar.

Mismunandi útgáfur nýja merkisins.

Elliði gerði merkið einnig að umtalsefni á Facebook-síðu sinni og birti mynd af því ásamt þremur merkjum nasista, þ. á m. fána Þýskalands og nasista, skreyttum hakakrossinum.

„Í dag kynnti Samfylkingin nýtt merki, þar er um að ræða hvítan hring á rauðum fleti. Ætli þeim hafi á einhverjum tímapunkti dottið í huga að googla hverskonar samtök noti helst það myndmál? Samfylkingin á ekkert skylt við þessi samtök og þess vegna veltir maður fyrir sér afhverju þetta myndmál sé notað,“ skrifar Elliði.

Margir taka fálega í þennan samanburð Elliða og sumir segja hann jafnvel ósmekklegan í athugasemdum við færsluna. Þá er Elliða jafnframt bent á að færa megi rök fyrir því að fálkinn í merki Sjálfstæðisflokksins, fyrir hvern Elliði sat í bæjarstjórn Vestmannaeyja um árabil, eigi einmitt margt skylt við örninn, sem nasistar notuðu sjálfir í merkjum sínum.

Elliði kvað merki Sjálfstæðisflokksins, sem væri að fyrirmynd Ríkarðs Jónssonar, vissulega sótt í sama brunn og mörg merki þriðja ríkisins. En lagði áherslu á að hér væri hann aðeins að velta fyrir sér myndmálinu.

„Bíddu, bíddu - allir rólegir. Ég er hreint ekki að líkja Samfylkingunni við neinn þessara samtaka, tek þvert á móti fram að hún eigi EKKERT skylt við þau. Bara að velta fyrir mér myndmálinu líkt og svo oft er gert þegar samtök velja sér merki,“ segir Elliði í athugasemd við færslu sína.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×