Innlent

Helsti talsmaður rafretta hér á landi hlýtur dóm fyrir skattsvik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir telur rafrettur byltingarkennt tækifæri til að útrýma tóbaksreykingum og bjarga þannig mannslífum.
Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir telur rafrettur byltingarkennt tækifæri til að útrýma tóbaksreykingum og bjarga þannig mannslífum.

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, heimilislæknir sem verið hefur helsti talsmaður rafretta hér á landi undanfarin ár, hefur verið dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku.

Var hann annars vegar ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á einkahlutafélagi sem hann var í forsvari fyrir sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður. Kom hann sér undan greiðslu tekjuskatts samtals að fjárhæð rúmlega tólf milljónum króna með broti sínu.

Hann var hins vegar ákærður fyrir að hafa vanrækt að standa skil á skattframtölum sínum á lögmæltum tíma sömu ár og þannig ekki greitt tekjuskatt og útsvar á tveggja ára tímabili sem nam tæplega fimm milljónum króna.

Við meðferð málsins dró héraðssaksóknari síðari ákæruna til baka og í framhaldi af því játaði Guðmundur Karl brotið í fyrri lið ákærunnar.

Við ákvörðun refsingar var tekið tillit til þess að Guðmundur Karl játaði skýlaust sök og leitaðist við að upplýsa málið við rannsókn þess. Brot hans þykja þó meiriháttar í skilningi almennra hegningarlaga.

Í samræmi við dómaframkvæmd var þreföld sú fjárhæð sem vangoldin var ákveðin sem refsing, eða rúmlega 37 milljónir króna. Guðmundur Karl þarf að greiða upphæðina innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins ella sæta fangelsi í 360 daga.

Þá þarf hann að greiða 1,6 milljónir króna í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×