Fótbolti

Bjarni: Verðum að vinna næsta leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Landsliðsfyrirliðinn segir að það hafi verið sárt að ganga af velli með ekkert stig í fyrsta leik Íslands á EM í Danmörku.

„Þetta svíður svolítið. Það var ótrúlegt að við skyldum tapa þessum leik og mjög slæmt líka,“ sagði Bjarni. „Það hefði verið frábært að ná einhverju úr leiknum því mér fannst við vera betri aðilinn.“

„Mér fannst við halda boltanum betur en þeir. Að vísu vantaði nokkra grimmd í okkar leik í fyrri hálfleik enda áttum við bara eitt skot þá. Við ákváðum að vera aðeins grimmari í seinni hálfleik en við nýtum ekki færin og erum klaufar eitt augnablik í varnarleiknum.“

Næsti leikur er svo gegn sterku liði Sviss á þriðjudaginn kemur og verður Ísland að fá eitthvað úr leiknum til að ná sínum markmiðum á mótinu.

„Já, þeir eru aðeins sterkari. Það verður erfiðari leikur en ef við höldunum boltanum eins og við gerðum í dag og vinnum aðeins betur fram á við þá held ég að við eigum fínan séns.“

„Við erum núna komnir með bakið upp við vegg og þurfum að vinna þennan leik.“

Aron Einar Gunnarsson fékk að líta rauða spjaldið í dag og játar Bjarni því að það er slæmt að missa hann í leikbann fyrir leikinn gegn Sviss.

„Það er slæmt. Hann spilaði vel í dag en ætli Gummi (Kristjánsson) komi ekki inn í liðið. Við verðum að vinna út úr því og gera okkar besta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×