Enski boltinn

Vieira: Guttarnir eru betri en við

Patrick Vieira, fyrrum fyrirliði Arsenal, segir að unglingaher Arsene Wenger í dag sé að spila betri knattspyrnu í dag en liðið gerði þegar hann var sjálfur hluti af því á sínum tíma.

Arsenal er sem fyrr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og ungt lið félagsins er komið í undanúrslit enska deildarbikarsins. Vieira, sem sjálfur vann þrjá meistaratitla og fjóra bikartitla með Arsenal á níu ára ferli sínum - segir meiri hæfileika í liðinu í dag.

"Arsene hefur gert ótrúlega hluti með þetta lið og leikmennirnir eru að fylgja honum í einu og öllu. Þegar ég fór fékk Cesc Fabregas tækifæri til að sanna sig og það hefur hann sannarlega gert. Svo fór Henry, en síðan hefur Adebayor aldrei skorað meira og Robin Van Persie er orðinn meiri leiðtogi," sagði Vieira.

"Þegar ég var hjá Arsenal vorum við með mjög sterkt lið, en þetta lið Arsenal í dag er líklega að spila betri fótbolta en við gerðum á sínum tíma. Það á svo eftir að koma í ljós hvort þessi spilamennska skilar liðinu titlum, en að mínu mati er Arsenal eitt tveggja til þriggja best leikandi liðanna í Evrópu í dag," sagði Vieira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×