Gunnar Valdimarsson er helst þekktur fyrir hæfileika sína á sviðið húðflúra. Hann hefur flúrað nokkra íslenska landsliðsmenn og fleiri þekkta. Saga Gunnars er aftur á móti mögnuð og hefur hann þurft að glíma við áföll á sinni lífsleið. Gunnar er gestur vikunnar í Einkalífinu en þar opnar hann sig um foreldramissi og skilnað.
Fyrir nokkrum árum féll móðir hans frá eftir baráttu við krabbamein og á sama tímabili stóð hann í skilnaði við barnsmóður sína. Fyrrverandi eiginkona Gunnars hefur nú fundið ástina og það með annarri konu.
Þegar Gunnar var sautján ára féll faðir hans frá eftir að hafa fengið hjartaáfall en samband þeirra feðga var ekki gott á síðustu árunum.
„Pabbi var járnsmiður, svona harður karl og agalegur tappi sem var kallaður hamarinn. Hann gat rétt hvað sem er með hamri og þótti mjög handlaginn,“ segir Gunnar í þættinum.
„Við áttum rosalega erfitt samband ég og faðir minn. Það sem fór verst í bróðir minn er það sem gerist eftir að pabbi deyr en það sem fór verst í mig var það sem gerðist áður en pabbi deyr. Pabbi fékk hjartaáfall þremur, fjórum árum áður en hann deyr og varð sjötíu prósent öryrki og það eina sem hann mátti gera var að bera út blöð. Þú getur ímyndað þér að fara úr því að vera harður járnsmiður yfir í það að sitja heima og þú mátt ekkert gera nema bera út blöð á morgnanna. Þetta fór alveg með hann og hann fór bara yfir um. Ég skil þetta í dag, en auðvitað skildi maður þetta ekki þá þegar maður er fjórtán ára og á árum sem eru rosalega viðkvæm. Ég man að við rifumst rosalega mikið og það síðasta sem ég segi við hann er að ég vona að þú deyir. Það sat rosalega lengi í mér og ég fyrirgaf sjálfum mér ekki í langan tíma.“
Í þættinum hér að ofan ræðir Gunnar einnig um húðflúraferil sinn og sérstakt samband sem á með íslenskum landsliðsmönnum, um skömmina sem fylgdi skilnaðinum, um erfitt samband sitt við föður sinn, um lífið í Noregi í dag þar sem hann elur börnin sín tvö upp með barnsmóður sinni og kærustu hennar, um ást sína á tónlist en hann stofnaði á dögunum sveitina Gunnar the fifth sem er tilvísun í ítrekaðan misskilning varðandi nafn hans erlendis og Gunnar ræðir um margt fleira í þættinum.