Fótbolti

Lyon tilbúið að áfrýja og vill mörghundruð milljóna bætur

Sindri Sverrisson skrifar
Moussa Dembele og félagar náðu ekki Evrópusæti, miðað við forsendurnar sem franska deildin gaf sér.
Moussa Dembele og félagar náðu ekki Evrópusæti, miðað við forsendurnar sem franska deildin gaf sér. VÍSIR/GETTY

Ekki eru allir á eitt sáttir með þá ákvörðun frönsku 1. deildarinnar í fótbolta að ljúka tímabilinu og láta meðalstigafjölda í leik á leiktíðinni ráða lokastöðu liðanna.

Forráðamenn Lyon hafa sagt að þeir gætu áfrýjað niðurstöðunni en hún bitnar illa á félaginu. Með því að notast við meðalstigafjölda í leikjum vetrarins endar Lyon nefnilega í 7. sæti og missir af sæti í Evrópukeppni í fyrsta sinn síðan árið 1996. Í yfirlýsingu frá Lyon segir að félagið áskilji sér rétt til að kæra niðurstöðuna og sækja sér skaðabætur, og að áætlaður tekjumissir félagsins nemi fleiri tugum milljóna evra vegna niðurstöðunnar, eða mörghundruð milljónum króna.

Til greina kom að láta stöðuna eftir 27 umferðir ráða, en þá hefði Lyon verið í Evrópusæti. Lyon hafði einnig stungið upp á því að reynt yrði að ljúka mótinu með úrslitakeppni eða með öðrum hætti, en lokað hefur verið fyrir íþróttakeppnir í Frakklandi í sumar vegna kórónuveirufaraldursins.

„Það má vera að það verði eitthvað um áfrýjanir en ákvarðanir okkar byggja á traustum grunni,“ sagði Didier Quillot, framkvæmdastjóri frönsku deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×