Innlent

Sóttvarnalæknir segir tillögu Ingu Sæland geta leitt til miklu stærri faraldurs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Inga Sæland ber ekki traust til yfirvalda þegar við kemur kórónuveirunni.
Inga Sæland ber ekki traust til yfirvalda þegar við kemur kórónuveirunni. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir hugmynd Ingu Sæland um að setja Íslendinga sem snúa aftur til landsins eftir dvöl á Tenerife í sóttkví í Egilshöll ekki góða. Þetta kom fram á blaðamannafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis í dag.

Inga sagðist í viðtali við Harmageddon á þriðjudag ekki bera traust til sóttvarnalæknis. Viðbrögð hans og annarra sem að almannavörnum landsins koma við útbreiðslu kórónaveirunnar hafi verið röng og máttlítil. Réttast væri að hennar mati að loka landinu algjörlega meðan faraldurinn geisar.

Fjarstæðukennt sé að enn sé reglulegt áætlunarflug til og frá Tenerife þar sem tíu Íslendingar eru í sóttkví. Fengi hún að ráða myndi Inga loka alla Íslendinga sem þaðan koma inni í „Egilshöll eða eitthvað“ meðan gengið væri úr skugga um að þeir væru ekki smitaðir.

„Mér finnst hugmyndin ekki góð. Það byggi ég á því að ef við ætlum að taka mjög stóran hóp af fólki og loka hann af, kannski einkennalausu fólki sem væri hugsanlega í smithættu, við skulum segja hundruð manna eða þúsund. Það væri vís vegur ef einhver einn í slíkum hópi myndi veikjast að smita alla hina. Við gætum endað með miklu stærri og útbreiddari faraldur en við myndum annars fá,“ segir Þórólfur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×