Innlent

Eftirför endaði utanvegar

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Til eftirfarar kom þegar lögregluþjónar reyndu að stöðva ökumann bifhjóls á tíunda tímanum í gær. Ökumaðurinn og farþegi sem var á hjólinu einnig, ók um Laugardalinn og Hlíðarnar með lögregluþjóna í eftirför og lenti að endingu í umferðaróhappi. Engan sakaði en farþeganum tókst að komast undan lögreglu.

Ökumaður hjólsins var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, of hraðan akstur, að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu, aka yfir gatnamót gegn rauðu ljósi, ítrekaðan akstur án réttinda og fleira, samkvæmt dagbók lögreglunnar.

Hann var vistaður í fangageymslu lögreglunnar.

Þrjú voru handtekin eftir að tilkynning barst um líkamsárás í hverfi 108 í nótt. Þau voru grunuðu um árásina og vistuð í fangageymslu. Meiðsl þess sem ráðist var á liggja ekki fyrir.

Þá var annar maður handtekinn í íbúð í miðbænum í gærkvöldi. Sá er grunaður um eignaspjöll og hótanir.

Skömmu fyrir fimm í nótt barst svo tilkynning um mann sem var að skemma bíla í Breiðholti. Lögreglan handtók mann á vettvangi sem var í annarlegu ástandi.

Tveir eldar í bílum voru tilkynntir í gærkvöldi. Í annað skiptið kem eldurinn upp þar sem tveir voru í honum en báðum tókst að komast út. Þá var nokkuð um að ökumenn voru stöðvaðir sem voru án réttinda og undir áhrifum, bæði fíkniefna og/eða áfengis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×