Innlent

„Við verðum með lægra verð núna í sumar“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ferðamenn sjást hér við Gullfoss en búast má við því að lítið verði um erlenda ferðamenn við fossinn í sumar vegna kórónuveirufaraldursins.
Ferðamenn sjást hér við Gullfoss en búast má við því að lítið verði um erlenda ferðamenn við fossinn í sumar vegna kórónuveirufaraldursins. Vísir/Vilhelm

Svavar Njarðarson, eigandi Gullfoss Kaffis, veitingastaðar við einn vinsælasta ferðamannastað landsins, Gullfoss, segir að hægt verði að lækka vöruverð í sumar.

Staðurinn hefur verið lokaður frá því um miðjan mars og áætlar Svavar að hafa opið í júní, júlí og ágúst „í mýflugumynd“, eins og hann orðar það, en síðan verði lokað aftur í haust.

Tíu til fimmtán prósent starfsmanna hefur verið sagt upp en um tuttugu starfsmenn fóru í 25% starfshlutfall í hlutabótaleið stjórnvalda.

„Þegar að þeirri leið sleppir verður væntanlega bara venjuleg uppsögn sem tekur við,“ segir Svavar en rætt var við hann í Reykjavík síðdegis í dag.

Hann segir erlenda ferðamenn hafa verið 99% viðskiptavina Gullfoss Kaffis síðustu ár. Breyting verði væntanlega á því í sumar.

Spurður út í verðlagninguna sem Íslendingar hafa löngum kvartað yfir að sé of há hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu og hvað gerist þegar nýr hópur kemur inn sem er kannski ekki tilbúinn til að borga eins mikið fyrir vörurnar segir Svavar:

„Það er aðlögun í verðlagningunni hjá okkur, ekki það svo sem að maður hafi verið að okra neitt áður. Ég veit það ekki, það er náttúrulega búið að hækka mikið kostnaðurinn og annað en við verðum með lægra verð núna í sumar.“

Er það af því að þið teljist ykkur neyðast til þess?

„Ég held að það verði bara það fáir á ferðinni og annað. Ég veit ekki til þess að það sé neitt, það verði bara lægra þjónustustig og annað þannig að við getum kannski leyft okkur það að hafa aðeins lægri verð, minni opnunartími og annað,“ segir Svavar en hlusta má á viðtalið við hann í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×