Innlent

Holle-barnamatur innkallaður

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Þetta er önnur tegund barnamatarins sem hefur verið innkallaður.
Þetta er önnur tegund barnamatarins sem hefur verið innkallaður.
Yggdrasill hefur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis innkallað lífrænan barnamat vegna of mikils magns atrópíns í vörunum.

Á heimasíðu Matvælastofnunar segir að atrópín sé náttúrulegt eiturefni í jurtum sem geti valdið einkennum á borð við oföndun, ringlun og óróa.

Um er að ræða vörurnar Holle Organic Millet Porridge with rice með lotunúmerunum L14103 og L13219 og Holle Organic Millet Porridge apple-pear með lotunúmerinu L13239.

Jafnframt segir á heimasíðu Matvælastofnunar að stofnunin hafi fengið tilkynningu í gegnum evrópska hraðviðvörunarkerfið RASFF um innköllunina.

Vörurnar voru innkallaðar í Þýskalandi, Austurríki og Tékklandi þann 25. nóvember síðastliðinn. Þær upplýsingar fengust hjá heilbrigðiseftirlitinu að tilkynning hefði borist til Íslands þann 11. desember. Þá hefði strax verið farið að undirbúa innköllun varanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×