Erlent

Grunaður morðingi handtekinn í Suður-Kóreu

Frá Suður-Kóreu. Úr myndasafni.
Frá Suður-Kóreu. Úr myndasafni. MYND/AP

Lögregla í Suður-Kóreu handtók í dag eftirlýstan mann sem flúði frá Bandaríkjunum fyrir 10 árum, grunaður um morð. Hinn eftirlýsti, David Nam, er kóreskur en fæddur í Bandaríkjunum og hafði farið huldu höfði í einu af úthverfum Seoul þar sem hann vann fyrir sér sem enskukennari.

Nam er grunaður um að hafa skotið mann til bana í innbroti í borginni Fíladelfíu í Pennsylvaníuríki árið 1996. Hann var látinn laus gegn tryggingu og flúði þá til Suður-Kóreu þar sem hann var handtekinn ári síðar.

Þar sem ekki var í gildi neinn samningur um framsal sakamanna milli Bandaríkjanna og Suður-Kóreu á þeim tíma var Nam leystur úr haldi og lét sig þá hverfa. Framsalssamningur var gerður skömmu síðar.

Lögreglan í Seoul kveðst hafa leitað á svæðum þar sem Nam var talinn eiga ættingja og þrengt hringinn smám saman með rannsóknum á þeim svæðum. Búist er við að hann verður framseldur til Bandaríkjanna á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×