Erlent

Nágrannar Serba viðurkenna sjálfstæði Kosovo

MYND/AP

Búlgarar, Ungverjar og Króatar munu í dag bætast í hóp þeirra landa sem viðurkenna sjálfstæði Kosovo-héraðs. Þetta segir Reuters-fréttaveitan og vísar til yfirlýsingar sem hún hefur undir höndum.

Þjóðirnar þrjár eru fyrstu nágrannar Serba til þess að viðurkenna sjálfstæði héraðsins en Kosovo-Albanar lýstu yfir sjálfstæði 17. febrúar. Serbar segja hins vegar að héraðið sé órjúfanlegur hluti af Serbíu og hefur komið til átaka í Kosovo að undanförnu milli Kosovo-Serba annars vegar og hersveita NATO og lögreglumanna á vegum Sameinuðu þjóðanna vegna málsins.

Ungverjar, Búlgarar og Króatar leggja í yfirlýsingu sinni áherslu á að serbneski minnihlutinn í Kosovo njóti góðrar verndar eftir breytingarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×