Innlent

Fyrstu íbúðirnar byggðar á Hólmavík eftir hrun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fyrsta húsbyggingin eftir hrun er hafin á Hólmavík. Byggingarfélag heimamanna hóf fyrir helgi að grafa grunn að raðhúsalengju.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar er stærsti eigandi Fasteignafélagsins Hornsteina, sem reisir raðhúsin, en að því standa einnig Sparisjóður Strandamanna, Hólmadrangur og Trésmiðjan Höfði. Fyrir samfélagið á Hólmavík þykir það tíðindum sæta að ráðist sé í byggingu íbúðarhúss, en síðast var parhús reist þar árið 2008.

Jón Eðvald Halldórsson, kaupfélagsstjóri og stjórnarformaður Hornsteina, segir í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að þeir heyri af áhuga fjölskyldna að setjast að á Hólmavík en skortur á húsnæði sé hindrun.

Þrjár íbúðir verða í nýju raðhúsalengjunni af mismunandi stærðum, frá 70 og upp 105 fermetra, og er stefnt að því að þær fyrstu verði tilbúnar næsta sumar. Hornsteinar gera ráð fyrir að leigja út íbúðirnar, enda kalli markaðurinn á Hólmavík fyrst og fremst eftir leiguhúsnæði, að sögn Jóns Eðvalds. Íbúðirnar verði engu að síður falar til kaups.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×