Innlent

Mikið tjón í World Class og Lágafellslaug eftir vatnsleka

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Slökkviliðið sá um að dæla vatninu.
Slökkviliðið sá um að dæla vatninu. Vísir/Jói K.

Mikið tjón varð í húsnæði Lágafellslaugar og World Class í Mosfellsbæ vegna vatnsleka í nótt. Bilun í búnaði sundlaugarinnar olli því að vatni var áfram dælt eftir að aðallaugin fylltist. Þetta kom fram í samtali fréttastofu við Lárus Petersen, varðstjóra hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta eru einhverjar græjur sem verið var að nota til að fylla aðallaugina. Á dælunni er rofi sem á að slá út þegar laugin er full. Hann virðist hafa bilað og þess vegna dældi í alla nótt,“ segir Lárus.

Afleiðingin var talsvert vatnstjón í kjallara húsnæðis Lágafellslaugar, sem og í World Class-líkamsræktarstöðinni, sem er í sama húsi.

Þegar fréttastofa náði tali af Lárusi var aðgerðum á vettvangi nýlokið. Notast var við stærðarinnar dælu, sem almennt er notuð við slökkvistarf, til þess að pumpa vatni úr húsinu og út á götu. Þannig var dregið úr álagi á niðurföll í húsinu sem gátu tekið það vatn sem eftir var.

Lárus segir að á um 600 fermetra svæði kjallarans hafi meðaldýpt vatns verið í kring um 50 sentimetra. Þannig gæti vatnsmagnið í kjallaranum hafa verið í kring um 300 þúsund lítra.

Vatninu var dælt út á götu, þaðan sem það fann leið sína í niðurföll Mosfellsbæjar.Vísir/Jói K.

Þarf að skipta um gólf í World Class-stöðinni

Björn Leifsson, eigandi World Class, var ekki búinn að fara sjálfur á stöðina í Mosfellsbæ þegar fréttastofa náði tali af honum. Hann hafði þó fengið símtal frá sundlaugarstjóranum og verið upplýstur um stöðu mála.

Björn segir að útlit sé fyrir að skipta þurfi um allt gólfið á neðri hæð stöðvarinnar. Hann segir þó að annar búnaður, á borð við líkamsræktartæki, hafi sloppið vel.

„Það er auðvitað bara heilmikil vinna að færa öll tækin og skipta um þetta,“ segir Björn. Hann bætir þó við að búið verði að skipta um gólf áður en stöðin opnar aftur.

Frá vettvangi.Vísir/Bjarni


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×