Innlent

Sjaldan meiri hætta á ofbeldi gegn börnum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Ofbeldi gegn börnum getur aukist við aðstæður eins og nú eru í þjóðfélaginu að sögn barnamálaráðherra. Hann hefur ráðist í aðgerðir til að fækka slíkum tilfellum. Börn á Akureyri geta með rafrænum hætti sjálf tilkynnt um ofbeldi gegn sér eða öðrum.

Rannsóknir hafa sýnt að heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum getur aukist á tímum farsótta og félagslegrar einangrunar. 

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra.Vísir/baldur

Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra segir brýnt að fækka slíkum tilfellum og ná til barna sem verða fyrir ofbeldi.

„Tölfræðin sýnir okkur að við svona aðstæður  þarf að grípa inní en það er áskorun að finna leiðir til að gera það. Það hefur líka sýnt sig á Ítalíu þar sem farsóttin hefur verið mun lengur en hér að bæði heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum virðist hafa aukist,“ segir hann. 

Ásmundur segir að ráðist hafi verið í ýmsar aðgerðir eins og samvinnu við Rauða krossinn og hjálparsímann 1717, þá sé verið að undirbúa vitundarvakningu um mikilvægi þess að fólk tilkynni um ofbeldi til 112 og loks sé verið að undirbúa aðgerðir til að ná sérstaklega til barna til dæmis á samfélagsmiðlum.

Börn geta sjálf tilkynnt um ofbeldi á Akureyri

Akureyrarbær setti nýlega sérstakan tilkynningahnapp á vefsíðu sína fyrir börn þar sem þau geta sjálf tilkynnt um ofbeldi gegn sér. 

Alfa Dröfn Jóhannesdóttir verkefnastýra hjá barnvænu sveitarfélagi hjá AkureyrarbæVísir

Alfa Dröfn Jóhannesdóttir verkefnastýra barnvæns sveitarfélags segir það afar mikilvægt.

[„Sérstaklega núna á þess þar sem hættan á heimilisofbeldi er að aukast þá er sérstaklega mikilvægt að börn geti sjálf tilkynnt um ofbeldi gegn sér og leiðirnar til þess séu einfaldar, segir Alfa.

Við erum öll barnavernd

Hún segir einnig afar mikilvægt að almenningur láti vita ef það telur barn í vanda.

„Þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu eru kjöraðstæður fyrir ofbeldi inni á heimilum og því afar brýnt að við sem þjóð séum meðvituð og látum vita ef við verðum vör við slíkt. Við erum öll barnavernd,“ segir hún að lokum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×