Innlent

Hótanir og ofbeldi í garð nágranna sinna: Dæmdur til að selja íbúðina og flytja burt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjórar íbúðir eru í húsinu og hefur maðurinn átt íbúðina í kjallara hússins frá árinu 2005.
Fjórar íbúðir eru í húsinu og hefur maðurinn átt íbúðina í kjallara hússins frá árinu 2005. Vísir/Vilhelm
Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að maður skuli selja íbúð sína í fjöleignarhúsi í Reykjavík og flytja úr henni. Húsfélagið stefndi manninum í júní 2013 vegna brota á lögum um fjöleignarhús.

Fjórar íbúðir eru í húsinu og hefur maðurinn átt íbúðina í kjallara hússins frá árinu 2005. Fram kemur í dómi héraðsdóms að ósætti hafi verið í húsinu og beindust brot mannsins einkum að gjaldkera húsfélagsins.

Brotin birtust í hótunum, skemmdarverkum og líkamsmeiðingum. Þá hafi aðrir íbúar í húsinu einnig orðið fyrir barðinu á manninum og var svo komið að nágrannar mannsins þorðu hvorki í sameign eða garð hússins ef hann var heima, að því er fram kemur í dómnum.

Nágrannar mannsins þurftu ítrekað að leita til lögreglu vegna hótana og meintra skemmdarverka hans. Þá var hann í mars 2009 dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna ítrekaðra hótana í garð annarra íbúa hússins. Kemur fram í dómnum öll brotin sem hann hafi verið dæmdur fyrir þá hafi verið framin „eftir að honum hafi verið birt áskorun og aðvörun.“

Héraðsdómur taldi sannað, og fellst Hæstiréttur á það, að maðurinn hafi gerst sekur um „stórkostleg og ítrekuð brot á skyldum sínum“ gagnvart húsfélaginu með margendurteknum hótunum og ofbeldi í garð nágranna sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×