Innlent

Sögðu upp í kjöl­far meints ein­eltis sveitar­stjórnar­manns í Vestur­byggð

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Patreksfirði í Vesturbyggð.
Frá Patreksfirði í Vesturbyggð. Getty

Kennari við Patreksskóla á Patreksfirði í Vesturbyggð, sem sagði upp störfum á síðasta ári, hefur ákveðið að leita réttar síns þar sem hann segist hafa orðið fyrir einelti af hálfu sveitarstjórnarmanns í sveitarfélaginu.

Leiðbeinandi í skólanum sagði sömuleiðis upp störfum á síðasta ári vegna meints eineltis af hálfu sama sveitarstjórnarmanns, sem einnig starfar í skólanum.

Frá þessu segir í Fréttablaðinu í morgun. Segir lögfræðingur kennarans það hafa verið skýra niðurstöðu eineltisteymis sveitarfélagsins að um einelti hafi verið að ræða.

Meintur gerandi starfar einnig í skólanum

Fréttablaðið segir frá því að meintur gerandi sé María Ósk Óskarsdóttir, sem starfar sem leiðbeinandi í skólanum og er sveitarstjórnarfulltrúi lista Nýrrar sýnar í Vesturbyggð.

Er málið sagt tengjast deilum innan fjölskyldu kennarans, sem sagði upp í apríl, og Maríu Óskar og á María að hafa gert starfsaðstæður kennarans í skólanum óbærilegar.

Hafnar ásökunum

Þannig á hópur annarra starfsmanna skólans að hafa farið á fund félagsmálastjóra Vesturbyggðar og kvartað undan framkomu Maríu Óskar á vinnustaðnum. Eftir að kennarinn sagði upp er María Ósk sögð hafa beint sjónum sínum að leiðbeinandanum sem sagði svo upp síðar á árinu.

María Ósk segist í samtali við blaðið hafna ásökunum en vilji annars ekki tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×